Starungsmýravist
L8.9 Starungsmýravist
Eunis-flokkun: D4.163 Icelandic black sedge-brown moss fens.
Lýsing
Lítið til nokkuð hallandi, deigt til blautt, þýft mýrlendi vaxið mýrastör og fleiri votlendistegundum, á sléttlendi og í hlíðum. Á þúfum og rimum vaxa smárunnar og fleiri þurrlendistegundir. Jarðvatn stendur hátt en land fer lítið eða ekki undir vatn í leysingum og flóðum, vatn er fremur steinefnaríkt og land frjósamt. Það er algróið, gróður allhávaxinn, æðplöntur eru ríkjandi en mosi mikill, fléttur finnast vart. Í þennan flokk falla elftingamýrar en í þeim getur mýrelfting verið með allt eins mikla þekju eða meiri en mýrastör.
Plöntur
Vistgerðin er miðlungi rík af tegundum æðplantna, fremur rík af mosum en fléttutegundir frekar fáar. Ríkjandi tegundir æðplantna eru mýrastör (Carex nigra), bláberjalyng (Vaccinium uliginosum), fjalldrapi (Betula nana) og engjarós (Comarum palustre). Algengustu mosar eru tildurmosi (Hylocomium splendens), móasigð (Sanionia uncinata), engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), lémosi (Tomentypnum nitens) og geirmosi (Calliergonella cuspidata) en af fléttum finnast helst himnuskóf (Peltigera membranacea) og hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula).
Jarðvegur
Lífræn jörð er nær einráð, jarðvegur er mjög þykkur, fremur ríkur af kolefni og sýrustig fremur lágt.
Fuglar
Ríkulegt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru lóuþræll (Calidris alpina), spói (Numenius phaeopus), þúfutittlingur (Anthus pratensis), hrossagaukur (Gallinago gallinago), jaðrakan (Limosa limosa) og stelkur (Tringa totanus).
Líkar vistgerðir
Runnamýravistir á láglendi og hálendi.
Útbreiðsla
Finnst í öllum landshlutum, á láglendi og lágheiðum, einkum þar sem land er aflíðandi, berggrunnur þéttur og grunnvatnsstaða há.
Verndargildi
Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.