Stinnastararvist
L9.1 Stinnastararvist
Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. E4.3C Icelandic Carex bigelowii grasslands.


Lýsing
Fremur rýrt, smáþýft og þurrt, mosaríkt graslendi vaxið stinnastör og fleiri gras- og mólendistegundum. Land er hallalítið, algróið, gróður fremur lágvaxinn af graslendi að vera, æðplöntur ríkjandi. Mosi er mikill í sverði og áberandi í ásýnd, fléttur eru nokkrar.
Plöntur
Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntutegundum en fremur fátæk af mosum og fléttum. Ríkjandi tegundir æðplantna eru stinnastör (Carex bigelowii), blávingull (Festuca vivipara) og vallarsveifgras (Poa pratensis). Algengastir mosa eru engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), móatrefja (Ptilidium ciliare), tildurmosi (Hylocomium splendens), hrísmosi (Pleurozium schreberi) og hraungambri (Racomitrium lanuginosum) en algengustu fléttur eru hreindýrakrókar (Cladonia arbuscula) og fjallagrös (Cetraria islandica).
Jarðvegur
Áfoksjörð er ríkjandi en einnig finnst lífræn jörð. Jarðvegur er þurr til deigur, miðlungs þykkur, miðlungi ríkur af kolefni, sýrustig frekar lágt.
Fuglar
Miðlungs ríkt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru spói (Numenius phaeopus), þúfutittlingur (Anthus pratensis), hrossagaukur (Gallinago gallinago), lóuþræll (Calidris alpina) og heiðlóa (Pluvialis apricaria).
Líkar vistgerðir
Útbreiðsla
Algengust til heiða vestan- og norðvestanlands, finnst einnig austanlands og sunnan.
Verndargildi
Miðlungs. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

