Urðarskriðuvist

L3.1 Urðarskriðuvist

Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. H2.13 Icelandic talus slopes.

Lýsing

Brattar, yfirleitt stöðugar, mjög stórgrýttar og grófar basalt- og líparítskriður og urðir. Gróður er ­nokkur, mosar að uppistöðu, einnig svolítið um fléttur en mjög lítið er um æðplöntur. Gróður er því mjög lágvaxinn. Mosinn hraungambri setur svip á flestar skriður í þessum flokki og myndar víða samfelldar breiður ofan á stórgrýtinu.

Plöntur

Vistgerðin er fátækust allra vistgerða af æðplöntum en af þeim finnast helst blávingull (Festuca vivipara) og ólafssúra (Oxyria digyna). Mosaflóra er fremur fábreytt en fjöldi fléttutegunda í meðallagi. Algengastir mosa eru hraungambri (Racomitrium lanuginosum) og holtasóti (Andreaea rupestris) en algengustu fléttur eru hraunbreyskja (Stereocaulon vesuvianum) og landfræðiflikra (Rhizocarpon geo­graphicum).

Jarðvegur

Eiginlegur jarðvegur er nánast enginn en mikið holrými er á milli steina. Klapparjörð er ráðandi jarðvegsgerð. Kolefnisinnihald jarðvegs mælt undir mosa er frekar hátt en sýrustig mjög lágt. Raki ræðst nánast eingöngu af úrkomu og bindingu í mosa þar sem skriðurnar halda nánast engu vatni.

Fuglar

Strjált fuglalíf, en varpland steindepils (Oenanthe oenanthe) og snjótittlings (Plectrophenax nivalis). Hrafn (Corvus corax), smyrill (Falco colunbarius) og fálki (Falco rusticolus) í klettum.

Líkar vistgerðir

Ljónslappaskriðuvist og grasvíðiskriðuvist.

Útbreiðsla

Finnst í bröttu fjalllendi í öllum landshlutum.

Verndargildi

Miðlungs. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.