Urðarskriðuvist
L3.1 Urðarskriðuvist
Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. H2.13 Icelandic talus slopes.


Lýsing
Brattar, yfirleitt stöðugar, mjög stórgrýttar og grófar basalt- og líparítskriður og urðir. Gróður er nokkur, mosar að uppistöðu, einnig svolítið um fléttur en mjög lítið er um æðplöntur. Gróður er því mjög lágvaxinn. Mosinn hraungambri setur svip á flestar skriður í þessum flokki og myndar víða samfelldar breiður ofan á stórgrýtinu.
Plöntur
Vistgerðin er fátækust allra vistgerða af æðplöntum en af þeim finnast helst blávingull (Festuca vivipara) og ólafssúra (Oxyria digyna). Mosaflóra er fremur fábreytt en fjöldi fléttutegunda í meðallagi. Algengastir mosa eru hraungambri (Racomitrium lanuginosum) og holtasóti (Andreaea rupestris) en algengustu fléttur eru hraunbreyskja (Stereocaulon vesuvianum) og landfræðiflikra (Rhizocarpon geographicum).
Jarðvegur
Eiginlegur jarðvegur er nánast enginn en mikið holrými er á milli steina. Klapparjörð er ráðandi jarðvegsgerð. Kolefnisinnihald jarðvegs mælt undir mosa er frekar hátt en sýrustig mjög lágt. Raki ræðst nánast eingöngu af úrkomu og bindingu í mosa þar sem skriðurnar halda nánast engu vatni.
Fuglar
Strjált fuglalíf, en varpland steindepils (Oenanthe oenanthe) og snjótittlings (Plectrophenax nivalis). Hrafn (Corvus corax), smyrill (Falco colunbarius) og fálki (Falco rusticolus) í klettum.
Líkar vistgerðir
Ljónslappaskriðuvist og grasvíðiskriðuvist.
Útbreiðsla
Finnst í bröttu fjalllendi í öllum landshlutum.
Verndargildi
Miðlungs. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

