Víðikjarrvist

L10.10 Víðikjarrvist

Eunis-flokkun: F2.322 Oroboreal willow scrub.

Lýsing

Þurrt til deigt gróskumikið kjarrlendi á láglendi, í brekkurótum og hlíðum og á gróðursælum stöðum til fjalla, vaxið gulvíði, loðvíði, krækilyngi og fleiri mólendistegundum. Land er vel gróið, gróður fremur hávaxinn, æðplöntur eru ríkjandi, mosar allmiklir en fléttur fremur rýrar. Hvönn og annar hávaxinn blómgróður eins og blágresi og burnirót eru sums staðar áberandi.

Plöntur

Vistgerðin er mjög rík af tegundum, einkanlega æðplöntum en af þeim telst hún ríkust allra vistgerða. Ríkjandi tegundir æðplantna í vistgerðinni eru bláberjalyng (Vaccinium uliginosum), krækilyng (Empetrum nigrum), fjalldrapi (Betula nana), loðvíðir (Salix lanata) og gulvíðir (S. phylicifolia). Algengastir mosa eru móasigð (Sanionia uncinata), tildurmosi (Hylocomium splendens), engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), jarphaddur (Poly­trichum juniperinum) og melagambri (Racomitrium ericoides), en algengustu fléttur eru fjallagrös (Cetraria islandica), kvistagrös (C. sepincola), vikurbreyskja (Stereocaulon alpinum) og torfubikar (Cladonia pocillum).

Jarðvegur

Áfoksjörð er ríkjandi en einnig finnst lífræn jörð. Jarðvegur er víðast þurr en getur einnig verið deigur, hann er þykkur, miðlungi ríkur af kolefni og sýrustig er í meðallagi.

Fuglar

Ríkt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru þúfutittlingur (Anthus pratensis), hrossagaukur (Gallinago galli­nago), lóuþræll (Calidris alpina), spói (Numenius phaeopus), skógarþröstur (Turdus iliacus) og grágæs (Anser anser).

Líkar vistgerðir

Kjarrskógavist, fjalldrapamóavist og lyngmóavist á láglendi.

Útbreiðsla

Á láglendi og lágheiðum um allt land, þar sem sauðfjárbeit er lítil eða engin. Algengust á Suðurlandi, Vestfjörðum, Norðausturlandi og Austurlandi.

Verndargildi

Mjög hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.