Víðimelavist
L1.4 Víðimelavist
Eunis-flokkun: H5.2 Glacial moraines with very sparse or no vegetation


Lýsing
Allvel grónir, nokkuð grýttir, fremur þurrir melar á heiðum og til fjalla, einkum á landi sem farið er nokkuð að gróa. Yfirborð er yfirleitt stöðugt og sandfok lítið. Gróður er mjög lágvaxinn. Þekja æðplantna, mosa og lífrænnar jarðvegsskánar er svipuð en fléttuþekja frekar lítil.
Plöntur
Vistgerðin er miðlungi rík af æðplöntutegundum, fremur fátæk af mosum en fremur rík af fléttum. Af æðplöntum er mest um grasvíði (Salix herbacea), túnvingul (Festuca rubra subsp. richardsonii) og holtasóley (Dryas octopetala). Algengastir mosa eru melagambri (Racomitrium ericoides), hraungambri (R. lanuginosum) og holtasóti (Andreaea rupestris) en algengustu fléttur eru fölvakarta (Porpidia melinodes), vikurbreyskja (Stereocaulon arcticum) og dvergkarta (Tremolecia atrata).
Jarðvegur
Er miðlungs þykkur, flokkast sem melajörð og sandjörð, er með frekar lágt kolefnisinnihald en sýrustig fremur hátt.
Fuglar
Fábreytt fuglalíf og strjált varp, stöku snjótittlingar (Plectrophenax nivalis), sendlingar (Calidris maritima) og heiðlóur (Pluvialis apricaria).
Líkar vistgerðir
Útbreiðsla
Útbreidd á miðhálendinu og til fjalla á Vestfjörðum og Austfjörðum. Finnst einkum þar sem land er nokkuð grýtt og yfirborð stöðugt.
Verndargildi
Lágt.

