Víðimóavist

L10.9 Víðimóavist

Eunis-flokkun: Nýr flokkur, tillaga. F2.113 Icelandic Salix lanata/­S. phylicifolia scrub.

Lýsing

Þurrir til rakir, allvel grónir móar með loðvíði, fjallavíði, krækilyngi og fleiri mólendistegundum. Vistgerðin finnst á láglendi og á miðhálendinu, einkanlega á flötum eða lítið eitt hallandi framburðarsléttum. Jarðvegur er víða sendinn og á snjóþungum svæðum er þekja lífrænnar jarðvegsskánar umtalsverð. Gróður er fremur lágvaxinn. Þekja æðplatna og mosa er allmikil en þekja fléttna lítil.

Plöntur

Vistgerðin er frekar rík af tegundum æðplantna, mosa og fléttna. Ríkjandi tegundir æðplantna eru krækilyng (Empetrum nigrum), loðvíðir (Salix lan­ata), fjallavíðir (S. arctica) og fjalldrapi (Betula nana). Algeng­astir mosa eru fjallhaddur (Poly­trichastrum alpi­num), melagambri (Racomitrium erico­ides), móasigð (Sanionia uncinata), glætumosi (Dichodontium pellucidum), mýrahnúði (Onco­phorus wahlenbergii) og vætularfi (Schljakovianthus quadrilobus), en af fléttum finnast helst torfubikar (Cladonia pocillum) og melbreyskja (Stereo­caulon rivulorum).

Jarðvegur

Áfoksjörð er algengust en einnig er nokkuð um sandjörð. Jarðvegur er þurr til deigur, fremur þykkur, mjög rýr af kolefni en sýrustig fremur hátt.

Fuglar

Fremur ríkulegt fuglalíf, algengustu varpfuglar eru  heiðlóa (Pluvialis apricaria), lóuþræll (Calidris alpina), sendlingur (C. maritima) og rjúpa (Lagopus mutus) á hálendi, auk þess á láglendi spói (Numenius phaeopus), hrossagaukur (Gallinago galli­nago), skógarþröstur (Turdus iliacus) og grágæs (Anser anser).

Líkar vistgerðir

Hrossanálarvist, fjalldrapamóavist og víðikjarrvist.

Útbreiðsla

Finnst einkum inn til landsins, á sendnu deiglendi. Algengust á gosbeltinu.

Verndargildi

Miðlungs.