Hettumáfur (Chroicocephalus ridibundus)

Útbreiðsla

Hettumáfur verpur í Evrópu og um miðbik Asíu til Kyrrahafs og er auk þess nýlega farinn að verpa vestanhafs. Hann er að mestu farfugl sem fer aðallega til V-Evrópu en þúsundir fugla sjást hér í vetrarfuglatalningum.

Stofnfjöldi

Hettumáfur nam hér land upp úr 1930, fjölgaði hratt og náði stofninn sennilega hámarki laust fyrir 1990, var þá gróflega metinn 25.000−30.000 pör (Umhverfisráðuneytið 1992). Hettumáfum fækkaði um langt skeið á stóru talningarsvæði í Eyjafirði; 1.709 pör árið 1990, 1.547 pör 1995 og 1.325 pör árið 2000 (2,5% fækkun á ári, Ævar Petersen og Sverrir Thorstensen 2005) en hefur fjölgað síðan og voru um 1.600 pör í Eyjafirði árið 2015 (Sverrir Thorstensen, munnl. uppl.). Stærstu vörpin hér á landi voru í Skógum í Skagafirði og við Bessastaðatjörn. Í Skógum voru um 1.100 pör árið 1974 en aðeins 270 pör árið 1987. (Kristinn H. Skarphéðinsson og Guðmundur A. Guðmundsson 1990). Við Bessa­staðatjörn urpu 830 pör árið 1992 (Ævar Petersen og Árni Davíðsson 1992), 680 pör 1996 (Kristbjörn Egilsson o.fl. 2004) og rúmlega 400 pör árið 2014 (Jóhann Óli Hilmarsson og Ólafur Einarsson 2015).

Válistaflokkun

LC (ekki í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
LC LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 9,6 ár Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1989–2018

Hettumáfsstofninn er ekki vel þekktur en er ekki talinn í hættu (LC). Stopular athuganir benda til þess að varpfuglum hafi fækkað víða, m.a. á Suðvesturlandi en sú fækkun hefur gengið til baka í Eyjafirði sem er jafnframt það svæði á landinu þar sem langbest er fylgst með hettumáfsvarpi.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Hettumáfur var ekki talinn í hættu (LC).

Verndun

Hettumáfur er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Veiðirétthafa er heimilt að taka egg hettumáfs en þó aldrei eftir 15. júní ár hvert.

Samkvæmt reglugerð 456/1994 er heimilt er að veiða hettumáf frá 1. september til 15. mars.

Válisti

Engar hettumáfsbyggðir hér teljast alþjóðlega mikilvægar.

IBA viðmið – IBA criteria:

A4 i: Evrópa = 19.833 pör/pairs (Wetlands 2016)

B1 i: NV-Evrópa = 11.883 pör/pairs (Wetlands 2016)

Myndir

Heimildir

Jóhann Óli Hilmarsson og Ólafur Einarsson 2015. Fuglalíf á Álftanesi: fuglar í fjörum, á grunnsævi, tjörnum og túnum 2014. Unnið fyrir Garðabæ. http://www.gardabaer.is/library/Files/Umhverfismal/Fuglatalning/%C3%81lftanes_sk%C3%BDrsla2014%20fuglal%C3%ADf%20n%C3%BD.pdf [skoðað 15.5.2017].

Kristbjörn Egilsson, Guðmundur Guðjónsson og Guðmundur A. Guðmundsson 2004. Gróður og fuglalíf á Álftanesi. Náttúrufræðistofnun Íslands, NI-04012. Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands. http://utgafa.ni.is/skyrslur/2004/NI-04012.pdf [skoðað 3.5.2018].

Kristinn H. Skarphéðinsson og Guðmundur A. Guðmundsson 1990. Fuglalíf í Skógum, Skagafirði og nágrenni, 1987. Bliki 9: 49–66.

Umhverfisráðuneytið 1992. Iceland: national report to UNCED. Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.

Wetlands International 2016. Waterbird Population Estimates. http://wpe.wetlands.org/search [skoðað 26. nóvember 2016].

Ævar Petersen og Árni Davíðsson 1992. Fuglalíf Bessastaða og nágrennis. Skýrsla unnin fyrir Bessastaðanefnd.

Ævar Petersen og Sverrir Thorstensen 2005. Vöktun hettumáfs í Eyjafirði 1995–2000. Náttúrufræðingurinn 73: 39–46.

Author

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, október 2018

Biota

English Summary

Chroicocephalus ridibundus colonized Iceland in the early 20th century and the population was roughly estimated 25,000−30,000 pairs in 1992. No sites in Iceland meet IBA criteria for this species.

Icelandic Red list 2018: Least concern (LC) as in 2000.