Húsþjófur (Ptinus tectus)

Útbreiðsla

Um heim allan, algengur á köldum og tempruðum slóðum en sjaldgæfur þar sem heitast er. Upprunninn á Nýja-Sjálandi og Tasmaníu en barst til Evrópu í kringum 1900.

Ísland: Í byggðarlögum um land allt.

Lífshættir

Húsþjófur lifir eingöngu innanhúss, í upphituðu, óhituðu eða lítt hituðu húsnæði. Bjöllur taka til við að verpa fáeinum dögum eftir að þær skríða púpuhjúp og verpa í 3–4 vikur við stofuhita en lengur við lægri hita. Algengt er að hvert kvendýr framleiði um 100 egg. Þroskaferlið frá eggi til fullorðinnar bjöllu getur farið fram við 5–28°C og rakastig yfir 40%, en kjöraðstæður eru 23–27°C og 70–90% raki. Húsþjófur er nokkuð frostþolinn en þolir ekki langtímafrost. Við –3°C drepast bjöllurnar á 56 dögum og á níu dögum við –10°C. Eggin klekjast á 8–9 dögum og lirfur púpa sig á tveim mánuðum við kjöraðstæður. Fullvaxnar koma þær sér fyrir í glufum eða grafa sig inn í eitthvað í umhverfinu og spinna um sig hjúp. Púpustig varir í 2–3 vikur. Eftir að bjöllurnar hafa skriðið úr púpum halda þær sig gjarnan í nokkra daga inni í hjúpnum. Samantekið þá tekur þroskinn frá eggi til fullorðins við kjöraðstæður 94 daga. Húsþjófur er fjölhæfur í fæðuvali og leggst á hvaðeina sem til fellur matarkyns úr plönturíkinu, svo og pappír, mottur, skinnavörur, uppþornuð hræ, músaskít, dauð skordýr og margt fleira.

Almennt

Húsþjófur er með algengari meindýrum í húsum hérlendis. Auk þess að finnast víða í híbýlum hefur hann komið sér vel fyrir í sumarhúsum víða um land og lifir þar af vetur þó kynding sé í lágmarki. Þar falla til matvæli frá fólki, einnig getur hann haldið sig innan veggja og étið skordýraleifar sem safnast hafa fyrir yfir sumartíma, einnig músahræ sem gætu hafa lent þar og músaskít. Húsþjófur hefur stundum reynst erfiður viðureignar þar sem hann hefur komið sér fyrir og stundum valdið verulegu tjóni. Dæmi: Í húseign hafði bylgjupappi verið lagður yfir einangrun í veggjum og múrað yfir. Bjöllur höfðu komið sér fyrir inni í pappanum og tóku að skríða út um rafmagnsdósir í miklum fjölda. Brjóta þurfti burt alla múrhúð til ráða niðurlögum bjallnanna. Húsþjófur er mjög varhugaverður í náttúrugripasöfnum.

Húsþjófur er lítil frekar kúpt bjalla sem minnir á dordingul, með kúlulaga hálsskjöld og áberandi skil á milli búkhluta. Einlitur brúnn með gula hæringu. Fálmarar langir, þráðlaga.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Author

Erling Ólafsson 14. ágúst 2009.

Biota