Liðdýr (Arthropoda)

Almennt

Liðdýr er fylking hryggleysingja með ytri stoðgrind, liðskiptan bol og liðskipta fætur. Stoðgrindin er gerð úr kítíni, stundum að nokkrum hluta úr kalki. Stoðgrindin heftir vöxt og hafa dýrin því hamskipti á vaxtarskeiðum. Að grunni til hefur hver liður bolsins par útlima sem þróast hafa á ótal vegu. Á liðum sem mynda höfuð hafa útlimirnir myndað munnlimi, á frambol ganglimi, einnig á afturbol nema útlimir öftustu liða sem taka þátt í myndun kynfæra. Þetta byggingarform hefur boðið upp á óþrjótandi möguleika á þróunarbrautinni og leitt til þess að liðdýr er langsamlega tegundaríkasta fylking dýraríkisins og hýsir um 80% allra dýrategunda sem lýst hefur verið. Liðdýr finnast nær hvarvetna á jörðinni, frá þurrustu auðnum á landi niður í hafdjúpin. Þó stærðarmunur sé mikill þá setur líkamsgerðin stærðinni takmörk. Þar ræður ytri stoðgrind miklu svo og loft- og efnastreymi um líkamann sem fer fram í opnum líffærakerfum. Stærstu liðdýrin lifa í sjó.

Author

Erling Ólafsson 16. nóvember 2015

Biota