Liðormar (Annelida)

Almennt

Fylking liðorma býr ekki yfir einstökum sérkennum sem einkennir hana heldur samspil einkenna sem flest má finna hjá öðrum fylkingum. Bolurinn er langur og oftast greinilega liðskiptur. Á liðunum eru ýmist totur með burstum, hjá öðrum með örstuttum fínum burstum eða alfarið án bursta. Á innra borði liðamóta er nokkurs konar styrktarspöng. Þegar hana vantar hverfur liðskiptingin á ytra borði. Bolurinn hefur nokkurs konar skurn sem gerð er úr teygjanlegu kollageni en ekki úr frumum. Undir skurninni er hins vegar frumuhúð sem gefur frá sér kollagenið. Vöxtur liðorma fer ekki fram með hamskiptum.

Fylkingin telur yfir 22.000 tegundir í heiminum sem lifa í sjó, vötnum og á þurru landi, í jarðvegi sem þó þarf að vera hæfilega rakur.  Flokkunarkerfið er breytilega uppsett eftir heimildum, staða tegundahópa nokkuð mismunandi. Sem dæmi má nefna að flokkur í einu kerfi kann að vera undirflokkur í öðru. Fylking með sex flokkum, að undanskildum einum sem uppi var á forsögulegum tíma, er ekki ósannfærandi. Á landi og í vötnum koma tveir flokkanna við sögu, blóðsugur (Hirundinea) og beltisormar (Oligochaeta).

Höfundur

Erling Ólafsson 17. janúar 2017.

Biota