Lindýr (Mollusca)

Almennt

Fylking lindýra er afar tegundarík og er fjöldi tegunda á jörðinni áætlaður um 240.000 sem þó hefur fjarri því öllum verið lýst. Til lindýranna heyra ýmist lífsform sem fæstir gera sér grein fyrir að séu til enda mörg hver falin í úthöfunum. Tegundirnar deilast í um það bil tíu flokka en tveir þeirra eru forsögulegir og útdauðir. Sniglar eru hvað þekktastir enda tegundaríkasti flokkur lindýranna. Sama má segja um samlokurnar, sem einnig eru tegundaríkur flokkur, og smokkfiskar eru á allra vitorði. Aðrir flokkar eru mun fjarlægari hugum fólks.

Sjórinn er mikilvægasta búsvæði lindýra og eru þau stærsta fylking sjávardýra. En fjölmargar tegundir lifa einnig í fersku vatni og á þurru landi. Beytileikinn er gríðarlegur. Meðal lindýranna má sjá agnarsmáar tegundir sem vart verða greindar með berum augum. Þar eru líka stærstu hryggleysingjar jarðarinnar, tegundir risasmokkfiska í djúpum úthafanna.

Sitthvað einkennir lindýrin. Utan um sig hafa þau möttul eða kápu með holrými þar sem fram fer öndun og úrgangslosun, tungu (radula) sem líkist raspi sem notuð er til að skrapa upp fæðu og afar sérstakt og einkennandi taugakerfi. Að grunni til hafa lindýrin skel, sem möttullinn byggir upp. Hún er gerð úr prótínum, kítíni og kalki. Skelin getur verið yfir dýrunum, allt um lykjandi eða horfin inn í líkama þeirra. Æxlun er með ýmsu móti, bæði útvortis og innvortis. Öll lindýr verpa eggjum og er ungviði með ýmsu móti, mismunandi form af lirfum eða einfaldlega í formi fullorðinna dýra.

Höfundur

Erling Ólafsson 10. janúar 2017.

Biota