1. febrúar 2023: Sigurður H. Magnússon. Landnám og útbreiðsla æðplanta og framvinda gróðurs í Surtsey árin 1965–2015

Sigurður H. Magnússon plöntuvistfræðingur flytur erindið „Landnám og útbreiðsla æðplanta og framvinda gróðurs í Surtsey árin 1965—2015“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 1. febrúar kl. 15:15.

Meðhöfundar að erindinu eru Pawel Wasowicz og Borgþór Magnússon.

Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar Íslands að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ. Erindið verður einnig flutt í beinni útsendingu á Youtube.

Allt frá því að Surtsey myndaðist á árunum 1963–1967 hefur verið fylgst náið með landnámi æðplantna í eynni og hafa fyrstu landnemar verið skráðir nákvæmlega í reitakerfi (100 x 100 m) sem nær yfir alla eyna. Til þess að fylgjast með útbreiðslu einstakra tegunda í eynni var árin 1996–1997, 2005–2006 og 2014–2015 farið kerfisbundið yfir alla reiti sem mögulegt var að komast í og allar tegundir skráðar og flokkaðar í þrjá flokka eftir því hve algengar þær voru. 

Frá 1965–2015 hafa alls 74 æðplöntutegundir verið skráðar í Surtsey. Landnám var talsvert frá 1965–1979 en þá dró verulega úr því. Landnám jókst hins vegar mikið eftir að mávar tóku að verpa í eynni árið 1986 og náði það hámarki árin 1992–1995. Landnám hefur verið misjafnt eftir yfirborðsgerð, mest á sandorpnum hraunum og á berum hraunum, tiltölulega lítið á sandsvæðum og á strandseti og ekkert á móbergi. 

Flokkun og hnitunargreining gróðurgagna fyrir árin 1996–2015 sýndi að í eynni eru sex megingerðir gróðurs, eða allt frá tegundasnauðum dreifðum frumherjagróðri yfir í gróskumikið og þétt graslendi sem myndast hafði í mávavarpinu. Á þessum tíma höfðu miklar gróðurbreytingar átt sér stað. Lítt gróin svæði með frumherjagróðri höfðu minnkað en svæði með fjöruarfa og melagróðri aukist verulega. Gróskumikið og vel gróið graslendi hafði einnig stækkað. Árin 1996–1997, 2005–2006 og 2014–2015 jókst meðalfjöldi tegunda mikið, eða úr 4,8 í 7,2 og síðan í 10,4 tegundir á ha. Þrátt fyrir mikil áhrif fugla í varpinu og nágrenni þess er stærstur hluti eyjarinnar enn mjög lítið gróinn. 

Tegundir hafa breiðst mjög mishratt út um eyna. Framsæknustu tegundirnar eru fjöruarfi, varpasveifgras og holurt en af öðrum má nefna skammkrækil, varpafitjung, vegarfa, melablóm, melgresi og hundasúru. Allt eru þetta tegundir sem eru annaðhvort frumherjar og/eða reskitegundir sem algengar eru hér á landi og vaxa einkum á lítt grónu landi, melum, söndum eða á röskuðum svæðum.