1. mars 2023. Svenja N.V. Auhage. Evrópski endurheimtuatlasinn

Svenja N.V. Auhage umhverfis- og vistfræðingur flytur erindið „Evrópski endurheimtuatlasinn“ á Hrafnaþingi 1. mars 2023 kl. 15:15. 

Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar Íslands að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ. Erindið verður einnig flutt í beinni útsendingu á Youtube.

Evrópski endurheimtuatlasinn (eða landabréfabók um ferðalög evrópskra fugla sem byggir á endurheimtugögnum merktra fugla) var opnaður formlega 26. maí 2022 á vegum EURING (European Union for Bird Ringing), evrópsku regnhlífarsamtakanna um fuglamerkingar. Atlasinn er einungis í rafrænni útgáfu, hann bíður upp á reglulegar uppfærslur og aðgangur er ókeypis: 
European Bird Migration Atlas.

Undirbúningsvinna atlassins tók mörg ár en skriður komst fyrst á verkið þegar ítalska ríkið bauðst til að fjármagna vinnu við þetta stórvirki í samvinnu við samninginn um verndun fartegunda (CMS, Convention on the Conservation of Migratory Species of Wild Animals). CMS starfrækir meðal annars alþjóðlega samninginn um votlendisfarfugla og búsvæði þeirra (AEWA) sem Ísland er virkur aðili að.

Vinna við atlasinn hófst af krafti árið 2017 og stóð fram að birtingu eða í fimm ár. Íslandi er þátttakandi í verkefninu, ásamt 49 merkingastöðvum innan Evrópu. Íslenskar endurheimtur erlendis til og með 2017 eru hluti af gagnasettinu. Umfjöllun og kortasjá af farleiðum um 300 evrópskra farfugla er að finna í rafræna endurheimtuatlasinum og verður útfærslan og skoðunarmöguleikarnir kynnt nánar í erindinu.  

Fyrirlesturinn á Youtube: