18. desember 2019. Pawel Wasowicz: Plant immigration, naturalization and invasion in the Arctic - what do we know today?

Pawel Wasowicz grasafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi á Hrafnaþingi miðvikudaginn 11. desember 2019.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að aðfluttar tegundir eru meiri ógn við líffræðilega fjölbreytni heldur en samanlögð áhrif mengunar, landbúnaðar og sjúkdóma. Að auki fylgir þeim gríðarlegur kostnaður. Sumar aðfluttar tegundir, eins og tegundir sem eru ræktaðar til matar og gæludýr, eru til gagns á meðan aðrar geta valdið miklum skaða. Aðfluttar æðplöntutegundir spila sérstakt hlutverk vegna þess hve þær eru mikilvægar í vistkerfum.

Fram til þessa hefur aðeins lítið verið vitað um aðfluttar plöntutegundir í flóru norðurslóða. Í sumum löndum, þar á meðal á Íslandi, í Noregi og Bandaríkjunum, hafa þær verið rannsakaðar þó heildarmyndin sé ekki ljós. Þannig hefur grunnspurningum á borð við hversu margar framandi tegundir eru á norðurslóðum, hvernig komu þær þangað og hvernig dreifast þær verið ósvarað. Af þeim sökum hefur verið mjög vandasamt að taka stjórnvaldsákvarðanir í málaflokknum þar sem þær þurfa að byggjast á vísindalegum grunni.

Í nýju verkefni sem unnið var undir stjórn Pawels Wasowicz grasafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands var leitast við að lýsa aðfluttri flóru norðurslóða í heild sinni og einkennum hennar. Í erindinu verða niðurstöður verkefnisins kynntar en þær verða birtar í vísindaritinu AMBIO snemma á næsta ári.

Auk Náttúrufræðistofnunar Íslands vann CAFF að verkefninu, ásamt eftirfarandi erlendum stofnunum: University of Helsinki, Norwegian Institute for Nature Research, International Arctic Research Center University of Alaska Fairbanks Canadian Museum of Nature, Yukon Conservation Data Centre, University of Aarchus, Alaska Center for Conservation Science - University of Alaska Anchorage, Washington State Univeristy og University of Alaska Museum of the North (Fairbanks).

Fyrirlesturinn á Youtube