12. febrúar 2020. Guðrún Óskarsdóttir: Vöktun gróðurs á Snæfellsöræfum og Fljótsdalsheiði

Guðrún Óskarsdóttir gróðurvistfræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands flytur erindi á Hrafnaþingi miðvikudaginn 12. febrúar 2020 kl. 15:15.

Náttúrustofa Austurlands vaktar ástand gróðurs í 42 rannsóknarreitum á Snæfellsöræfum og 30 á Fljótsdalsheiði vegna hugsanlegra áhrifa Kárahnjúkavirkjunar, einkum Hálslóns. Meginmarkmiðið er að kanna langtímabreytingar á gróðri. Verkefnið hóst með grunnmælingum í Kringilsárrana árið 2006, sama ár og byrjað var að safna vatni í Hálslón og árið 2007 voru mælingar gerðar á Vesturöræfum. Árið 2008 var rannsóknarreitum á Fljótsdalsheiði bætt við vöktunina til að fylgjast með hvort mæla mætti aukna hreindýrabeit þar vegna breyttrar dreifingar dýranna frá því fyrir framkvæmdir. Árin 2015–2017 voru mælingar endurteknar á öllum svæðum.

Breytingar sem sáust á gróðri milli ára voru mismunandi milli svæða og milli gróðurlenda. Helstu breytingarnar benda til aukins beitarálags hreindýra (á Fljótsdalsheiði) og heiðagæsa (í Kringilsárrana). Hlýnandi veðurfar gæti auk þess orsakað sumar breytinganna sem sáust. Litlar breytingar sáust almennt í votlendi og í vel grónu mólendi. Í ljósi niðurstaðna hefur verið ákveðið að bæta beitarrannsóknum við vöktunina. Í erindinu verður rýnt í niðurstöður vöktunarinnar hingað til og fjallað um þá umhverfisþætti sem gróðurbreytingarnar stjórnast mögulega af.

Fyrirlesturinn á Youtube