12. október 2022. Snorri Sigurðsson: Grænbók um líffræðilega fjölbreytni

Snorri Sigurðsson sviðsstjóri náttúruverndar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi um grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa á Hrafnaþingi miðvikudaginn 12. október kl. 15:15. Hrafnaþing verður haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar Íslands að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ. Erindið verður einnig flutt í beinni útsendingu á Youtube.

Íslensk stjórnvöld vinna nú að undirbúningi stefnumótunar og framkvæmdaáætlunar um líffræðilega fjölbreytni. Sú vinna er lykilþáttur við framkvæmd samnings Sameinuðu Þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity) sem Ísland hefur verið aðili að síðan 1992.

Nú er í samráðsgátt svokölluð grænbók um líffræðilega fjölbreytni, en grænbókin er í senn samantekt upplýsinga um stöðu líffræðilegrar fjölbreytni hér á landi og leggur línurnar um helstu viðfangsefni og áherslur sem stefnumótunin mun beina kastljósinu að. Grænbókin var unnin af stýrihóp sem var skipaður árið 2020 og í sitja fulltrúar fjögurra ráðuneyta auk tveggja fulltrúa skipuðum af ráðherra. Stýrihópnum til ráðgjafar voru einnig fulltrúar frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Hafrannsóknarstofnun. Náttúrufræðistofnun vann m.a. að samantekt um stöðu líffræðilegrar fjölbreytni á landi, í fersku vatni og í fjörum og er sú samantekt fylgiskjal með grænbókinni. Hafrannsóknarstofnun vann sambærilega samantekt um stöðuna í hafi.

Á þessu fyrsta Hrafnaþingi í vetur mun Snorri Sigurðsson greina frá forsendum og skipulagi vinnu við gerð grænbókar um líffræðilega fjölbreytni og stikla á stóru um helstu viðfangsefni hennar með áherslu á aðkomu og hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Fyrirlesturinn á Youtube: