22. mars 2017. Matthías Alfreðsson: Hefur skógarmítill numið land á Íslandi: svara leitað

22. mars 2017. Matthías Alfreðsson: Hefur skógarmítill numið land á Íslandi: svara leitað

Matthías Alfreðsson líffræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Hefur skógarmítill numið land á Íslandi: svara leitað“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 22. mars kl. 15:15.

Skógarmítill (Ixodes ricinus) er áttfætla sem tilheyrir ættbálki blóðmítla (Ixodida) og ætt stórmítla (Ixodidae). Hann er blóðsuga á spendýrum og fuglum og heldur sig í gróðri, einkum skógarbotnum.

Skógarmítlum hefur fjölgað í Evrópu, útbreiðslusvæði þeirra hefur stækkað til norðurs og þeir finnast einnig í meiri hæð yfir sjávarmáli en áður. Dreifingu skógarmítla inn á ný svæði fylgir ný ógn þar sem þeir geta borið með sér ýmsa sýkla, t.d. Borreliu burgdorferii, sem er orsakavaldur Lyme-sjúkdómsins, og veiru sem getur valdið mítilborinni heilabólgu.

Fyrsti skógarmítill sem fannst hér á landi var tekinn af tekinn af þúfutittlingi í Surtsey í maí 1967. Frá 1976 hafa öll innsend tilfelli verið skráð og varðveitt hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Lífshættir skógarmítils á Íslandi hafa lítt verið kannaðir en flestir hafa fundist á hundum, köttum og mönnum. Það var því ánægjulegt að sumarið 2015 barst Náttúrufræðistofnun Íslands beiðni um að taka þátt í verkefni sem nefnist VectorNet sem hefur það að markmiði að rannsaka útbreiðslu sýklabera í Evrópu. Um er að ræða samstarfsverkefni fjármagnað af European Food Safety Authority (EFSA) og European Centre for Disease Preventation and Control (ECDC). Hingað til lands komu tveir sérfræðingar frá Bretlandi til að hefja rannsókn á skógarmítlum í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Ísland og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um stöðu skógarmítla á Íslandi og niðurstöður fyrstu skipulögðu leitar að tegundinni á líklegum búsvæðum og hýslum. Leitað var með skipulegum hætti að skógarmítlum á 111 stöðum víðsvegar um land með aðferð sem nefnist flöggun (Tick flagging) og einnig var leitað á farfuglum, hagamúsum og refahræjum.

Fyrirlesturinn á YouTube