15. mars 2023. Snæbjörn Pálsson: Athugun á breytileika í erfðamengjum hafarna

Snæbjörn Pálsson prófessor í stofnlíffræði við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands flytur erindið „Athugun á breytileika í erfðamengjum hafarna“ á Hrafnaþingi 15. mars 2023 kl. 15:15.

Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar Íslands að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ. Erindið verður einnig flutt í beinni útsendingu á Youtube.

Stofnar lífvera á eyjum eru að mörgu leyti áhugaverðir fyrir rannsóknir á þróun. Landfræðilegar hindranir og fjarlægð frá meginlandi getur leitt til æxlunarlegrar einangrunar eyjastofna og þeir þróast á sérstakan hátt vegna tilviljana og náttúrulegs vals. Landnám á eyjum getur byggst á fáum einstaklingum og erfðabreytileiki þeirra orðið frábrugðinn stofnum á meginlandi strax frá upphafi. Eins geta sérstök umhverfisskilyrði og tegundafæð á eyjum leitt til náttúrulegs vals sem leiðir til sérstaks breytileika á eyjum. Dæmi um slík afbrigði eru allnokkrar undirtegundir fugla á Íslandi, þrátt fyrir stuttan tíma frá landnámi eða eftir síðasta jökulskeið ísaldar (um það bil 10.000 ár). Einangrun stofna getur einnig haft neikvæð áhrif þar sem skyldleiki meðal einstaklinga eykst, aukin hætta er á að skaðlegar stökkbreytingar safnist fyrir og að þær verði arfhreinar meðal einstaklinga og hafi neikvæð áhrif á frjósemi og lífslíkur.

Hafernir á Íslandi virðast vera einangraðir á landinu þrátt fyrir getu til að fljúga langar vegalengdir. Haförnum á Íslandi sem annarsstaðar á útbreiðsluvæði þeirra allt frá Grænlandi, Evrópu og Asíu var nærri útrýmt á 19. og 20. öld, en vegna verndunar og banns við notkun ýmissa eiturefna hefur þeim fjölgað. Fjölgunin  er þó hæg hér á landi í samanburði við fjölgun hafarna á Norðurlöndum, mögulega eru umhverfisskilyrðin erfið en frjósemin er um 1/3 á við frjósemi sænskra hafarna.

Í erindinu verður sagt frá niðurstöðum á greiningu á breytileika í erfðamengjum hafarna á Íslandi og frá Grænlandi og Norður-Evrópu, aðgreiningu milli landa og sögulegum stofnsveiflum. Verkefnið var unnið í samvinnu við Kristinn H. Skarphéðinsson á Náttúrufræðistofnun Íslands og fleiri þátttakendur sem útveguðu sýni. Charles Hansen varði doktorsverkefni um rannsóknina 2021 og Áki J. Láruson nýdoktor vann við greiningar á stofnsveiflum innan tegundarinnar. DNA úr gömlum sýnum frá um 1900 var einangrað og undirbúið til raðgreiningar við Kaupmannahafnarháskóla, gögn um norska haferni fengust frá samstarfsmanni við háskólann í Þrándheimi og hluti af vinnunni var unnin hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Námsferill og störf

Snæbjörn lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1988, meistaranámi frá vist- og þróunarfræðideild við State University of New York at Stony Brook 1992 og doktorsnámi frá erfðafræðideild Uppsalaháskóla í Svíþjóð 1999. Hann starfaði við stundakennslu við Háskóla Íslands og við rannsóknir á líffræðistofnun Háskóla Íslands, með hléum frá því hann var í BS-námi. Árin 2000–2002 vann hann hjá tölfræðideild Íslenskrar erfðagreiningar en síðan 2002 hefur hann stundað rannsóknir við Líf- og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands og sinnt kennslu. Fyrst sem rannsóknarstöðuþegi með styrk frá Rannís, frá 2005–2012 sem dósent og eftir það sem prófessor. Rannsóknir Snæbjarnar eru á sviði stofnerfðafræði, þróunarfræði og vistfræði.

Fyrirlesturinn á Youtube: