23. nóvember 2022: María Helga Guðmundsdóttir: Borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands: Uppbygging og framtíðarsýn

María Helga Guðmundsdóttir jarðfræðingur og umsjónarmaður borkjarnasafns Náttúrufræðistofnunar Íslands flytur erindið „Borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands: Uppbygging og framtíðarsýn“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 23. nóvember kl. 15:15.

Hrafnaþing er haldið í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar Íslands að Urriðaholtsstræti 6–8 í Garðabæ. Erindið verður einnig flutt í beinni útsendingu á Youtube.

 

Borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands varðveitir um 50 km af borkjörnum úr um 1700 borholum víðs vegar um land, og mikið magn borsvarfs að auki. Borkjarnar og borsvarf gera mögulegt að skoða þann hluta berggrunnsins sem ekki er sýnilegur á yfirborði jarðar og eru nauðsynleg gögn við jarðvísindalegar rannsóknir, hvort sem um ræðir grunnrannsóknir eða hagnýtar rannsóknir í þágu mannvirkjaframkvæmda eða nýtingar náttúruauðlinda. Safninu er ætlað að auðvelda aðgengi að borkjörnum og svarfi til að auðga rannsóknir á jarðfræði landsins.

Safnið hefur verið starfrækt síðan árið 2000 en fyrstu árin var starfsemin mjög takmörkuð vegna pláss- og aðstöðuleysis. Árið 2016 var safnið flutt í rúmbetra húsnæði á Breiðdalsvík og stendur nú yfir mikil uppbygging á aðstöðu og innviðum safnsins. Innra skipulag borkjarnageymslu hefur verið tekið í gegn, gagnagrunnur uppfærður og gerður aðgengilegur í kortasjá og WFS-þjónustu, samdar reglur og verkferlar fyrir sýnatöku og útlán, og hafist handa við innréttingu vinnslustofu með búnaði til sýnatöku og skoðunar. Fram undan er frekara uppbyggingarstarf með það að markmiði að borkjarnasafnið verði fyrsta flokks vísindasafn sem nýtist við rannsóknir, kennslu og miðlun þekkingar um jarðfræði Íslands.

Fyrirlesturinn á Youtube: