25. október 2023. Kristinn Pétur Magnússon og Theodore E. Squires: Erfðarannsóknir á rjúpu

Kristinn Pétur Magnússon sameindaerfðafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskólanum á Akureyri og Theodore E. Squires doktorsnemi við Háskólann á Akureyri flytja erindið „Erfðarannsóknir á rjúpu“ á Hrafnaþingi 25. október 2023 kl. 15:15.

Erindið verður flutt í fundaraðstöðu starfsstöðvar Náttúrufræðistofnunar Íslands að Borgum við Norðurslóð, Akureyri. Það verður einnig flutt í beinni útsendingu á Teams.

Visterfðamengjafræði sameinar erfðamengjafræði, stofnerfðafræði og þróunarlíffræði. Þessi fræðigrein notar vísindalegar aðferðir erfðagreiningar til að svara vistfræðilegum spurningum. Í þessu verkefni höfum við heilraðgreint erfðamengi rjúpunnar til að bera saman rjúpnastofna á norðurhveli og jafnframt til að meta fylgni erfðabreytileika við fasa stofnsveiflunnar og svipgerðir hjá íslensku rjúpunni. Í umfangsmiklu langtíma rannsóknarverkefni „Heilbrigði rjúpunnar“ sem Ólafur K. Nielsen var í forsvari fyrir á árunum 2006-2018, var safnað vefjum og gögnum um heilbrigði og hreysti fuglanna sem eiga sér enga hliðstæðu í heiminum. Við notuðum sýni úr þessum fuglum til að rannsaka m.a. breytileika í örverusamfélögum í botnlöngum rjúpunnar, og eins hvernig rjúpan glímir við varnarefni þeirra plantna sem hún bítur. Samanburður á erfðabreytileika ólíkra rjúpnastofna og innan sama stofns en eftir fösum stofnsveiflunnar gæti hjálpað við að skilgreina svæði í erfðamenginu sem tengjast náttúruvali/aðlögun og skilgreina gen sem taka þátt í líffræðilegum ferlum líkt og afeitrun fæðunnar.