26. mars 2025. Aldís Erna Pálsdóttir: Mófuglar – staða og ógnir

Aldís Erna Pálsdóttir, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, flytur erindið „Mófuglar – staða og ógnir“ á Hrafnaþingi 26. mars 2025 kl. 15:15.

Erindið verður flutt í Krummasölum, fundarherbergi Náttúrufræðistofnunar á 3. hæð í húsnæði stofnunarinnar í Urriðaholti, Garðabæ. Það verður einnig flutt í beinni útsendingu á Teams á netinu.

Hér á Íslandi má enn finna stór opin búsvæði sem eru kjörvarpstöðvar ýmissa fuglategunda, sem ferðast jafnvel þúsundir kílómetra til að verpa hér á sumrin. Hægt og rólega þrengir að þessum tegundum með mannlegri uppbyggingu og tilheyrandi búsvæðabreytingum. Stór hluti mófugla Íslands eru vaðfuglar sem fer almennt fækkandi í heiminum þar sem búsvæði þeirra minnka ört. Þessar tegundir eru langlífar og því geta áhrif búsvæðamissis verið lengi að koma fram. Í erindinu verður stiklað á stóru um rannsóknir sem hafa verið stundaðar við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi um áhrif ýmissar landnotkunar (hús, vegir, raflínur og skógar) á þéttleika mófugla í nánasta umhverfi. Einnig hvaða áhrif þessar breytingar hafa á afkomu (klakárangur) hreiðra, hverjir eru helstu afræningjar á hreiðrum þessara tegunda og stöðu íslensku vaðfuglastofnanna almennt.