30. október 2019. Stefanía Ragnarsdóttir: Vatnajökull kallar, fræðsla í Vatnajökulsþjóðgarði

Stefanía Ragnarsdóttir fræðslufulltrúi Vatnajökulsþjóðgarðs flytur erindi á Hrafnaþingi miðvikudaginn 30. október 2019 kl. 15:15.

Fræðsla er eitt af meginmarkmiðum Vatnajökulsþjóðgarðs og þjóðgarða almennt. Verndarflokkur þjóðgarða hefur það markmið að vernda náttúrulegan og líffræðilegan fjölbreytileika auk þess að efla fræðslu og útivist. Fræðsla er samofin starfsemi þjóðgarða bæði innra og ytra starfi og spilar meðal annars lykilhlutverk í þjónustu, upplifun, og öryggi gesta.

Í fyrirlestrinum verður innsýn gefin í fjölbreytt fræðslustarf Vatnajökulsþjóðgarðs undanfarin ár. Skoðað verður hvers vegna, hvernig og hvar fræðsla fer fram og hvernig hún þróast með síkvikri náttúru landsins þar sem staðreyndir og kort geta breyst hratt.  Einnig verður litið yfir verkefni fræðslufulltrúa þar sem upplýsingahönnun og landvarsla blandast nú saman og litið verður yfir metnaðarfulla fræðsluáætlun þjóðgarðsins þar sem tekin var saman staða fræðslu, mótuð stefna og lögð fram markmið og verkefni til framtíðar.

Fyrirlesturinn á Youtube