9. apríl 2025. Böðvar Þórisson: Harðasti nagli norðursins í vanda!

Böðvar Þórisson, líffræðingur og verkefnastjóri á rannsóknasetri Háskóla Íslands á Suðurlandi, flytur erindið „Harðasti nagli norðursins í vanda!“ á Hrafnaþingi 9. apríl 2025 kl. 15:15.

Erindið verður flutt í Krummasölum, fundarherbergi Náttúrufræðistofnunar á 3. hæð í húsnæði stofnunarinnar í Urriðaholti, Garðabæ, og verður jafnframt sent út í beinni á Teams.

Snjótittlingur (Plectrophenax nivalis) verpur allt í kringum norðurheimskautið og eru fáar spörfuglategundir sem verpa jafn norðarlega og þessi harðgerði fugl. Víða um heim hefur fuglum fækkað vegna búsvæðataps og loftslagsbreytinga og virðast fjallafuglar og norðlægar tegundir sérlega viðkvæmar – snjótittlingur er þar engin undantekning. Gögn úr vetrarfuglatalningum í Norður-Ameríku sýna um 64% fækkun á 40 árum og hér á landi benda vetrarfuglatalningar til 30–40% fækkunar á árunum 2002–2024.

Á Íslandi verpur snjótittlingur aðallega á hálendinu eða um 83% af stofninum, sem telur um 136.000 pör. Vísbendingar eru um að varpfuglum hafi fækkað en þó hafa engar rannsóknir verið birtar sem staðfesta þróunina.

Í erindinu verður greint frá athugunum rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi á varpstofni snjótittlinga á suðurhálendinu á árunum 2020–2024. Niðurstöðurnar verða bornar saman við eldri gögn frá Náttúrufræðistofnun sem safnað var á sömu svæðum árin 1996 og 2001–2002.