11. desember 2013. Sigurður Á. Þráinsson og Guðríður Þorvarðardóttir: Friðun Surtseyjar

11. desember 2013. Sigurður Á. Þráinsson og Guðríður Þorvarðardóttir: Friðun Surtseyjar

Sigurður Á. Þráinsson og Guðríður Þorvarðardóttir sérfræðingar hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu flytja erindi sitt „Friðun Surtseyjar“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 11. desember kl. 15:15.

Í erindinu verður greint frá aðdraganda að friðlýsingu Surtseyjar 19. maí 1965 sem byggir á lögum um náttúruvernd frá árinu 1956 en þá náði friðlýsingin aðeins til eyjarinnar. Farið verður yfir breytingar á friðlýsingarskilmálum í kjölfar endurskoðaðra laga um náttúruvernd árið 1971 en þá voru mörk friðlýsingarinnar færð 2 km út frá eyjunni þannig að hún náði til eyjarinnar ásamt 2 km hafsvæðis umhverfis Surtsey. Þar voru settar reglur um bann við skotveiði. Síðasta heildarendurskoðun friðlýsingarskilmála fyrir friðlandið í Surtsey tengdist tilnefningu á heimsminjalista UNESCO og byggir enn á ný á endurskoðuðum lögum um náttúruvernd, lögum nr. 44/1999. Við það tækifæri 27. janúar 2006 var friðlandið stækkað verulega og nær til Surtseyjar ofan sjávarmáls og niður á hafsbotn ásamt hafsvæði umhverfis eyna og er svæðið afmarkað með hnitsettum punktum. Þann 31. janúar 2011 var síðan lítilsháttar breyting gerð á friðlýsingarskilmálunum m.a. 5. gr. sem fjallar um umferð í og við Surtsey.

Farið verður yfir mat fulltrúa í Náttúruverndarráði um ástæður fyrir friðlýsingu Surtseyjar sem m.a. tengdist áhyggjum vegna aukinnar umferðar eða eins og Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur lýsti á fundi Náttúruverndarráðs þann 25. mars 1965: „ ... mannaumferð um eyna væri ekki einungis neikvæð að því leyti, að hún yki möguleika á því að líf bærist þangað á óeðlilegan hátt, heldur hindri mannaumferðin líf í að berast þangað, sér í lagi fugla og seli.“

Í leiðinn verður notað tækifæri til að rifja stuttlega upp umfjöllun um Surtsey, allt frá fyrstu dögum myndunar og fram að friðlýsingu, m.a. nefnd nokkur þeirra nafna sem fréttamenn og vísindamenn notuðu á hina nýju ey og hvenær fyrst var farið út í Surtsey til myndatöku og sýnatöku.

Að lokum verður farið yfir tilnefningu Surtseyjar á heimsminjalista UNESCO, þýðingu heimsminjalistans fyrir Surtsey, forsendur tilnefningarinnar og kröfur sem heimsminjanefnd UNESCO gerir til verndunar og umsjónar með Surtsey sem heimsminjastaðar.