19. febrúar 2014. Nýfundið og áhugavert myndefni frá Surtseyjargosi

19. febrúar 2014. Nýfundið og áhugavert myndefni frá Surtseyjargosi

Á Hrafnaþingi 19. febrúar kl. 15:15 verða sýndar stuttar kvikmyndir af eldgosinu í Surtsey sem þeir Þorleifur Einarsson jarðfræðingur og Gunnbjörn Egilsson starfsmaður hjá Atvinnudeild háskólans og síðar Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins tóku á 8 mm filmu. Kvikmyndirnar eru frá upphafi eldsumbrota í Surtsey og eru fyrstu myndirnar teknar 18. nóvember 1963 eða aðeins fjórum dögum eftir að gossins varð vart. Myndirnar eru teknar úr flugvél, af skipi og fyrst eftir að farið var í land í Surtsey.

Sólveig Jakobsdóttir dósent við Háskóla Íslands, Ásta Þorleifsdóttir jarðfræðingur og Sveinn Jakobsson jarðfræðingur taka til máls og Einar Þorleifsson náttúrufræðingur sýnir upptökurnar.

Að lokinni sýningu verða kvikmyndirnar afhentar Surtseyjarfélaginu til eignar og Náttúrufræðistofnun Íslands mun sjá um varðveislu þeirra.