29. janúar 2014. Kristinn Haukur Skarphéðinsson: Hundrað ára friðun arnarins

29. janúar 2014. Kristinn Haukur Skarphéðinsson: Hundrað ára friðun arnarins

Kristinn Haukur Skarphéðinsson dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindi sitt „Hundrað ára friðun arnarins“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 29. janúar kl. 15:15.

Hinn 1. janúar 1914 gengu í gildi lög sem fólu í sér friðun arnarins. Haförninn var orðinn sjaldgæfur hér á landi í byrjun 20. aldar, enda hafði verið hart sótt að honum áratugum saman með skotum og eitri og menn jafnvel verðlaunaðir fyrir arnardráp. Þrátt fyrir talsverðar umræður um friðun fugla á þessum tíma, virðist örninn ekki hafa átt sér neina opinbera málssvara fyrr en árið 1913. Þá um sumarið gerðust þau undur og stórmerki að Alþingi samþykkti lög sem fólu í sér tímabundna friðun arnarins um fimm ára skeið. Það má þakka baráttu fuglaverndarmanna og útsjónarsemi fáeinna þingmanna að takast skyldi að koma svo róttækum breytingum gegnum þingið. Á þessum tíma nutu hafernir hvergi verndar og voru Íslendingar fyrsta þjóðin sem friðaði þessa tegund.

Mest alla síðustu öld var örninn í útrýmingarhættu og fyrstu árin eftir friðun var hvað eftir annað reynt að ófriða örninn að nýju. Enn í dag eru ernir drepnir og hreiðrum þeirra spillt, þótt langflestir virði lögin sem betur fer. Arnarstofninn er fáliðaður (um 70 pör), en hefur vaxið hægt og örugglega í nokkra áratugi og er ekki lengur í bráðri hættu. Líklegt má telja að ef Alþingi hefði ekki gripið í taumana sumarið 1913 og friðað örninn, þá hefði hann dáið hér út eins og víða annars staðar.

Yfirlit um stöðu arnarstofnsins

Fyrirlesturinn á YouTube