11. mars 2015. Ester Rut Unnsteinsdóttir: Af refum á Hornströndum

11. mars 2015. Ester Rut Unnsteinsdóttir: Af refum á Hornströndum

Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands flytur erindið „Af refum á Hornströndum“ á Hrafnaþingi miðvikudaginn 11. mars kl. 15:15.

Refaveiðar hafa verið stundaðar hérlendis frá örófi alda, ýmist vegna verðmæts feldar eða til að vernda búfénað gegn ágangi refsins. Hornstrandir eru eitt fárra svæða á landinu þar sem melrakkinn nýtur nú friðhelgi en greni voru unnin þar allt til ársins 1994. Slík friðun gefur dýrmætt tækifæri til að fylgjast með refastofninum á svæðinu og bera saman við önnur svæði.

Í erindinu verður sagt frá viðamestu refarannsóknum á svæðinu frá því árið 1998 og til dagsins í dag en á tímabilinu hafa safnast gögn sem nýta má til að meta ábúðaþéttleika, félagskerfi, lífslíkur, tímgunarárangur, svæðisnotkun og tryggð við heimahaga. Jafnframt hefur verið aflað mikilvægra gagna um samskipti manna og refa og áhrif ferðamanna á afkomu og atferli refa við greni.

Helstu niðurstöður rannsókna á norðanverðum Hornströndum sýna að ábúðaþéttleiki hefur verið stöðugur þau 16 ár sem liðin eru frá fyrstu athugunum. Þó gerðist sú nýlunda sumarið 2014 að afkomubrestur varð, mörg fullorðin dýr fundust dauð, færri pör komu yrðlingum á legg en nokkurn tímann áður og margir yrðlingar drápust. Hægt er að tala um algert hrun í þessu samhengi þar sem ekkert viðlíka hafði sést á þeim tíma sem rannsóknir ná yfir. Þegar leitað var í veiðiskýrslur frá fyrri áratugum kom í ljós að svipað ástand var á refastofninum þegar hann var í lágmarki á áttunda áratug síðastliðinnar aldar. Ástæður eru óljósar en greinilegt er á þessum atburðum að refastofninn á Hornströndum er ekki eins stöðugur og áður hefur verið haldið.

Fundist hefur hátt magn kvikasilfurs í tófum við ströndina á Íslandi. Verið gæti að mengun sé meiri á þessu svæði en annars staðar þar sem uppistaða fæðunnar eru sjófuglar og sjórekin spendýr. Margt bendir til þess að ágangur ferðamanna hafi neikvæð áhrif á afkomu yrðlinga á svæðinu. Veðurlag síðla vetrar og vorhret gætu hafa haft neikvæð áhrif á varpárangur fugla og þar með óbein áhrif á tímgunarárangur refa.

Hornstrandir eru klárlega mikilvægasta griðland tegundarinnar hérlendis. Vegna stærðar svæðisins og þéttrar refabyggðar og það að skotveiðar eru bannaðar eru Hornstrandir einstakt svæði til að rannsaka náttúrulegar stofnbreytingar tegundarinnar. Nokkur þekking hefur safnast á þeim tíma sem liðinn er frá friðun. Þó er mörgum spurningum ósvarað og mikilvægt að koma á laggirnar þverfaglegri langtímavöktun á vistkerfi svæðisins þar sem fylgst yrði með stofnbreytingum fugla og refa og þeim umhverfisþáttum sem hafa áhrif á þessa stofna.
 

Fyrirlesturinn á YouTube