Svæðið er tilnefnt vegna jarðminja.

Mörk
Mörk miðast við Hengifossá frá þjóðvegi upp fyrir efstu fossa ofan Hengifoss, ásamt gljúfri og gljúfurbörmum. Miðað er við 200 m jaðarsvæði frá miðlínu árinnar.
Lýsing
Hengifoss og Litlanesfoss eru í Hengifossárgljúfri í norðanverðum Fljótsdal. Þar fellur Hengifossá fram af Fljótsdalsheiði í um 500 m hæð y.s. og rennur í Jökulsá á Fljótsdal skammt ofan við Löginn.
Hengifossá er dragá og sækir vatn sitt úr mýrum og hinum fjölmörgu tjörnum og vötnum sem finnast á Jökuldalsheiði. Áin er fremur vatnslítil en í henni eru fjórir fossar og þar af tveir tilkomumestir, Hengifoss og Litlanesfoss, einkum vegna hæðar sinnar og jarðlaga sem mynda bakgrunn við fossana. Hengifoss er 128 m hár og þar með einn af hæstu fossum landsins. Hengifossá hefur grafið sig áfram inn í berggrunninn, sem er frá Míósen, svo sjá má í þversniði fallega hraunlagasyrpu með áberandi setlögum inn á milli. Sérlega fallegar stuðlabergsmyndanir eru við Litlanesfoss.
Svæðið er vinsæll viðkomustaður ferðamanna og skógrækt er stunduð vestan gljúfursins.
Forsendur fyrir vali
Háir fossar í djúpu, þröngu gljúfri með svipmiklar jarðlagaopnur. Vinsæll áfangastaður ferðamanna.
Ógnir
Vaxandi umferð ferðamanna. Skógrækt og ágengar plöntutegundir.
Aðgerðir til verndar
Uppbygging innviða til að auðvelda og stýra umferð um svæðið. Vöktun framandi plöntutegunda. Gæta þarf þess að skógrækt birgi ekki sýn að gljúfrinu.
Núverandi vernd
Núverandi verndarsvæði | Staða |
---|---|
Hengifossárgljúfur | Aðrar náttúruminjar |
Náttúruverndarlög | Aðrar náttúruminjar |
Fleiri myndir

Útgáfudagsetning
Gefið út: 2020-12-03