Leirhnjúkur-Gjástykki

Svæðið er tilnefnt vegna jarðminja. Þar má sjá samspil gliðnunar og kvikuhreyfinga í rekbelti. Staðfesting flekakenningarinnar. Svæðið nær að hluta yfir tillögusvæðið Mývatn–Laxá, sem tilnefnt er vegna fugla.

Mörk

Svæðið nær utan um ummerki Kröfluelda 1975–1984, ásamt miklum hluta ummerkja Mývatnselda 1724–1729.

Kjarni svæðisins eru gígar og hraun Kröfluelda. Æskilegt er að svæðið nái einnig yfir ummerki Mývatnselda (Víti, Leirhnjúkshraun, Eldá, Eldhraun) og sem mest af þeim sprungum og misgengjum sem voru virk í Kröflueldum (jafnvel norður í Kelduhverfi).

Lýsing

Hér er fyrst og fremst átt við ummerki Kröfluelda 1975–1984, en einnig ummerki Mývatnselda 1724–1729. Þessi ummerki eru gígar, hraun og sprungur sem voru virkar í þessum eldum. Hér má fræðast um samspil gliðnunar og kvikuhreyfinga í dæmigerðu eldstöðvakerfi í rekbelti. Kröflueldar einkenndust af kvikuhlaupum 1975–1979 og síðan hraungosum 1980–1984. Land gliðnaði um allt að 8 metra sem jafngildir um það bil 400 ára reki.

Nánari lýsing

Gliðnunar- og goshrina 1975–1984. Nákvæmlega skráð og mæld. Vandlega rannsökuð.

Svæðið frá Leirhnjúk norður um Gjástykki í Kelduhverfi er einstætt frá jarðfræðilegu sjónarmiði, bæði á landsvísu og á heimsvísu. Þetta er eitt fárra svæða á Íslandi þar sem glögglega má sjá hvernig landið hefur gliðnað með tilheyrandi sigdæld, sprungum og misgengjum. Þar má jafnframt skoða hvernig hraun frá Kröflueldum hefur komið upp á svæðinu og runnið um svæðið, hulið sprungur og jafnvel runnið ofan í þær. Í Kröflueldum var í fyrsta sinn í heiminum fylgst með gliðnunarhrinu í eldstöðvakerfi á flekaskilum þar sem atburðurinn var allur vaktaður. Fylgst var með landsigi og -risi, gliðnun mæld, fylgst með kvikuhlaupum á jarðskjálftamælum og spáð fyrir um einstök eldgos. Ómetanleg jarðfræðileg, vísindasöguleg og menningarsöguleg verðmæti eru fólgin í þessum þætti myndunarsögu Íslands. Frá þessu sjónarmiði er allt rask óæskilegt og gildir það reyndar um svæðið allt frá Leirhnjúk norður í Kelduhverfi.

Ummerki um einn athyglisverðan þátt Mývatnselda er sprengigígurinn Víti en hann og Víti í Öskju eru einu gígarnir af þessu tagi sem þekkt er með vissu að hafi myndast eftir að landið byggðist.

Innan svæðisins er náttúruundrið Hvannstóð, tveir samvaxnir sprengigígar sem mynduðust fyrir um 5000 árum. Inn í þá hefur runnið hraun í Mývatnseldum og eftir að það var hálfstorknað hefur runnið undan því þannig að eftir standa göng og hellar með súlum á milli. Þetta minnir á Dimmuborgir en er smærra í sniðum og mun heillegra. Í Kröflueldum rann einnig hrauntaumur inn í Hvannstóð.

Forsendur fyrir vali

Staðfesting landrekskenningarinnar. Svæðið ber dæmigerð ummerki eftir gliðnunarhrinu, kvikuhlaup og sprungugos í rekbelti úthafshryggjar.

Jarðminjasvæðið er fágætt og einstakt á heimsvísu og hefur bæði mjög hátt vísindalegt gildi og fræðslugildi. Svæðið er heildstætt, lítt raskað og hefur þannig hátt gildi sem landslagsheild. Þar er mikil víðernisupplifun.

Ógnir

Ferðamennska, orkunýting, háspennulínur, vegagerð. Svæðið er frekar lítið raskað. Slóð rudd í gegn um Gjástykki sunnan við Hrútafjöll. Háspennulínur, borholur og vegslóðar. Flugvöllur og vegir við Mývatn.

Aðgerðir til verndar

Nauðsynlegt er að stýra umferð um svæðið, sérstaklega við Leirhnjúk. Þá þarf að koma í veg fyrir frekara rask á svæðinu vegna framkvæmda. Æskilegt væri að skipuleggja og merkja gönguleiðir um svæðið, þannig að ferðamenn fylgi ákveðnum leiðum.

Núverandi vernd

Núverandi verndarsvæði Staða
Gjástykki Rammaáætlun
Náttúruverndarlög Aðrar náttúruminjar

Heimildir

Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson 2009. Jarðminjar á háhitasvæðum Íslands. Jarðfræði, landmótun og jarðhitaummerki. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-09012 + kort og mynddiskur.

Kristján Sæmundsson 1991. Jarðfræði Kröflukerfisins. Í: Arnþór Garðarsson og Árni Einarsson (ritstj.), Náttúra Mývatns, bls. 25–95. Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík.

Páll Einarsson 1991. Umbrotin við Kröflu 1975-1980. Í: Arnþór Garðarsson og Árni Einarsson (ritstj.), Náttúra Mývatns, bls. 96–139. Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík.

Umhverfisstofnun 2004. Verndarsvæði í Skútustaðahreppi. Tillögur Umhverfisstofnunar vegna breytinga á lögum um vernd Mývatns og Laxár. Umhverfisstofnun, UST-2004:29.

Trausti Baldursson Ásrún Elmarsdóttir, Kristján Jónasson, Olga Kolbrún Vilmundardóttir og Sigmundur Einarsson 2009. Mat á verndargildi 18 háhitasvæða. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ–09014. 53 bls.

Útgáfudagsetning

Gefið út: 2018-04-05

Size

144,0 km2

Flokkun

Virk ferli - Eldvirkni og höggun

Jarðsaga

Skeið: Sögulegur tími
Tími: Nútími
Aldur: Síðast gaus 1975-1984