Glymur er hæsti foss landsins, 198 m (utan jökla)
Mörk
Mörk miðast við Glymsgil, frá ármótum við Stóragil og upp fyrir Breiðafoss ofan Glyms. Glymsgil er um 1.000 m langt og 50–100 m breitt en nær allt að 200 m breidd þar sem mest lætur. Jaðarsvæði er miðað við 200 m frá miðlínu Botnsár.
Lýsing
Glymur er í Botnsá í Botnsdal, í innanverðum Hvalfirði og rennur áin úr Hvalvatni. Við myndun Hvalfells, í gosi undir jökli fyrir 12–13.000 árum, stíflaðist jökulsorfinn dalur. Þegar jökullinn hörfaði myndaðist Hvalvatn, um 160 m djúpt, innan við fellið. Yfirborð Hvalvatns er í 380 m hæð en botn dalsins neðan við Hvalfell er í um 100 m hæð. Botnsá hefur frá ísaldarlokum grafið sér leið í gegnum jarðlagastaflann og myndað þröngt og djúpt gljúfur, Glymsgil, sem einnig nefnist Botnsárgljúfur. Innst í gljúfrinu, í um 300 m hæð y.s. fellur Glymur fram af klettahafti.
Glymur er hæsti foss landsins ef frá eru taldir fossarnir í Morsárdal sem myndast við jökulbráð. Fossinn er 198 m hár, fremur vatnslítill en rennsli hans er nokkuð stöðugt. Breiðifoss er um 1.500 m ofar í ánni en hann er slæðufoss í tveimur stöllum.
Neðst við Botnsárgljúfur er náttúrulegt birkikjarr. Gönguleiðir liggja upp meðfram gljúfurbörmum beggja vegna.
Forsendur fyrir vali
Hæsti foss landsins og djúp, þröng gljúfur. Vinsæll áfangastaður ferðamanna.
Ógnir
Vaxandi umferð ferðamanna veldur traðki á börmum gljúfursins.
Aðgerðir til verndar
Uppbygging innviða, laga þarf göngustíga til að stýra umferð. Takmarka þarf umferð inn í gljúfrið vegna hættu á hruni úr gljúfurveggjunum.
Núverandi vernd
Núverandi verndarsvæði | Staða |
---|---|
Brynjudalur, Botnsdalur, Hvalvatn og Glymur | Aðrar náttúruminjar |
Náttúruverndarlög | Aðrar náttúruminjar |