Svæðið er tilnefnt vegna jarðminja.

Mörk
Mörk miðast við Tröllafoss í Leirvogsá og gljúfur neðan hans í Tröllalágum ásamt nánasta umhverfi. Miðað er við 200 m jaðarsvæði frá miðlínu Leirvogsár.
Lýsing
Tröllafoss er í Leirvogsá sem á upptök sín að mestu leyti úr Leirvogsvatni á Mosfellsheiði. Áin skilur að sveitarfélögin Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ. Leirvogsá rennur um Stardal, sem eins og nafnið gefur til kynna, er nokkuð votlendur. Í Stardal eru leifar fornrar megineldstöðvar sem kennd er við dalinn. Stardalseldstöðin var virk fyrir um 1,8 milljónum ára og er hún mikið rofin. Stardalshnjúkar eru grunnstætt berginnskot eða bergsylla, líklega efsti hluti kvikuþróar eldstöðvarinnar, úr dóleríti eða míkrógabbrói.
Tröllafoss er í miðri öskju hinnar fornu eldstöðvar. Hann fellur milli hamra ofan í gljúfur sem áin hefur grafið í gegnum Tröllalágar í mynni Stardals. Fyrir neðan fossinn breiðir áin úr sér sem slæða yfir bergið. Gljúfrið er um 500 metra langt og 50 til 80 m breitt og kallast Tröllagljúfur.
Svæðið er fremur lítið gróið, holtin berangursleg en grónar lægðir í milli með rofjöðrum. Gönguleið og ökuslóðar liggja meðfram sunnanverðu gljúfrinu.
Forsendur fyrir vali
Tilkomumikill foss og gljúfur í nágrenni við höfuðborgina. Vinsæll viðkomustaður ferðamanna.
Ógnir
Aukin ásókn ferðamanna. Reiðleiðir og göngustígar liggja sunnan við gljúfrið og út frá þeim eru að myndast hentistígar. Ágengar plöntutegundir finnast í nágrenninu.
Aðgerðir til verndar
Uppbygging innviða og stýring ferðamanna. Vöktun og aðgerðir til að hindra frekari útbreiðslu framandi tegunda.
Núverandi vernd
Núverandi verndarsvæði | Staða |
---|---|
Náttúruverndarlög | Aðrar náttúruminjar |
Tröllafoss | Aðrar náttúruminjar |
Útgáfudagsetning
Gefið út: 2020-12-03