Svæðið er tilnefnt vegna jarðminja. Það er innan tillögusvæðisins Drangajökull, sem einnig er tilnefnt vegna jarðminja.

Mörk
Mörk miðast við fossa í ánum Rjúkanda, Hvalá og Eyvindarfjarðará, frá neðstu fossum við ósa að efstu fossum á heiðarbrúnum auk jaðarsvæða. Gert er ráð fyrir 200 m jaðarsvæði frá miðlínu ánna en þar sem þær eru hvað breiðastar er miðað við 200 m jaðarsvæði frá bakka.
Lýsing
Árnar þrjár eiga upptök sín á Ófeigsfjarðarheiði. Á heiðinni er fjöldi stöðuvatna og tjarna og árnar falla í röð fossa og flúða allt til ósa. Árnar Hvalá og Rjúkandi falla af heiðinni niður í Ófeigsfjörð. Í Rjúkanda er Rjúkandifoss, sem dregur nafn sitt af miklum úða sem þeytist út frá fossinum. Í Hvalá ofan Hvalárgljúfra er fossinn Drynjandi, sem hefur einnig nafnið Gljúfrabúi. Báðir eru fossarnir vatnsmiklir og með tært, blátt vatn. Neðar í Lambatungum sameinast Hvalá Rjúkanda og verður eitt mesta vatnsfall á Vestfjörðum. Skammt ofan Hvalárósa er Hvalárfoss þar sem áin fellur fram af hraunlögum við Hvalárhólma. Eyvindará kemur úr sunnanverðum Drangajökli og Efra- og Neðra-Eyvindarfjarðarvatni og fellur til sjávar í Eyvindarfirði. Áin steypist í stöllum allt frá Neðra-Eyvindarfjarðarvatni og eru Eyvindarárfossar fossaröð sem jafnframt er tilkomumikil séð af sjó.
Svæðið er norðan nyrstu byggðar og er enn lítið snortið.
Forsendur fyrir vali
Svæðið er lítt raskað og eru fossaraðirnar í ánum ein mesta perla þeirra víðerna sem kennd eru við Drangajökul.
Ógnir
Fyrirhuguð virkjun Hvalár og mannvirkjagerð í tengslum við hana.
Aðgerðir til verndar
Tryggja að rennsli til fossanna verði óskert.
Núverandi vernd
Núverandi verndarsvæði | Staða |
---|---|
Náttúruverndarlög | Aðrar náttúruminjar |
Drangajökull | Aðrar náttúruminjar |
Fleiri myndir












