Ísafjarðardjúp

Svæðið er tilnefnt vegna landsela. Það nær yfir svæðið Borgarey, sem tilnefnt er vegna fugla, að hluta yfir Vigur, sem einnig er tilnefnt vegna fugla, og að hluta yfir Reykjanes, sem tilnefnt er vegna vistgerða á landi og í ferskvatni.

Mörk

Allir firðir í innri hluta Ísafjarðardjúps, frá Folafæti við mynni Hestfjarðar að Ósi við mynni Ísafjarðar; strandlengjan, eyjar og sker ásamt 1 km jaðarsvæði til sjávar.

Lýsing

Langir og djúpir innfirðir með sæbröttum hlíðum og litlu undirlendi víðast hvar. Svæðið er ríkt af fuglalífi og landselur kæpir víða meðfram ströndinni og á eyjum. Landselslátur eru á Hvítanesi, Ögurnesi, í mynni Mjóafjarðar, á Vatnsfjarðarnesi, í Vatnsfirði, að Reykjanesi, í Reykjafirði, við Voga í Ísafirði og í Borgarey. Fyrr á árum var mikið um sveitabæi í Ísafjarðardjúpi, þar sem var stunduð sauðfjárrækt og sjósókn. Meðal hlunninda voru selveiðar, fiskveiðar, fugla- og eggjataka auk dúntekju. Mikið hefur dregið úr búskap og á síðari árum hefur verið þar fiskeldi, kræklingavinnsla og laxveiði, í smáum stíl. Frístundabyggð og ferðaþjónusta er vaxandi á svæðinu, þar með talið sjávartengd ferðamennska eins og skútusiglingar, hraðbátaferðir og kajakróður um firðina.

Forsendur fyrir vali

Innri hluti Ísafjarðardjúps er mikilvægt búsvæði landsela, þar sem hafa verið látur með samtals yfir 800 landselum. Það samsvarar allt að 91% af Vestfjarðastofninum og 16,4% af íslenska stofninum í heild. Landsel hefur fækkað um 15,3% á svæðinu frá 1980 en það er mun minni fækkun en heildarfækkun á landsvísu, sem er 77%.

Selir

Nafn Lægsti fjöldi (ár) Hæsti fjöldi (ár) Hæsta hlutfall af Vestfirðir (ár) Hæsta hlutfall af íslenskum stofni (%) (ár) Núverandi hlutfall af íslenskum stofni (ár)
Landselur (Phoca vitulina)
192,0 (2003)
816,0 (2011)
91,0 (2013)
16,4 (2013)
13,9 (2018)

Ógnir

Þættir sem taldir eru geta haft áhrif á fækkun sela eru veiðar (beinar veiðar og hjáveiðar) og truflun.

Aðgerðir til verndar

Tryggja þarf selum vernd í látrum og nærliggjandi grunnsævi þar sem fæðuöflun fer fram. Sett hefur verið upp selaskoðunarsvæði við Hvítanes þar sem umferð fólks sem kemur til að skoða seli er stýrt. Ekki er um vernd að ræða á öðrum svæðum. Verið er að vinna nýtingar- og verndaráætlun fyrir Ísafjarðardjúp.

Núverandi vernd

Engin

Útgáfudagsetning

Gefið út: 2020-12-03

Size

156,7 km2
Hlutfall land 1%
Hlutfall sjór 92%
Hlutfall strönd 7%
Hlutfall ferskvatn 1%