Viðarkveif - baneitraður sveppur

Viðarkveif - baneitraður sveppur

Þann 15. ágúst 2000 kom kona á Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar Íslands með litla brúna sveppi sem hún hafði fundið á viðarkurli á göngustíg í Kjarnaskógi við Akureyri. Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur stofnunarinnar dæmdi þá strax óæta og líklega eitraða og eftir að hafa skoðað þá í smásjá taldi að hér væri um að ræða tegundina Galerina marginata, viðarkveif, sem hefði lagt undir sig kurlaðan við í göngustíg um skóginn.

Þegar vaxtarstaðurinn var skoðaður var þessi greining staðfest og óx viðarkveifin í misþéttum breiðum í brún stígsins þar sem mest var af viðarkurlinu. Stígurinn er 5-6 ára gamall og hefur miðja hans gengist niður í mold og viðarkurlið er mest til hliðanna. Sveppurinn kom upp eftir fyrsta rigningarkafla sumarsins og hlýtur að hafa vaxið á viðarkurlinu í töluverðan tíma líklega nokkur ár, því þarna fannst hann um það bil 50 m kafla. Þar sem fólki gæti stafað hætta af sveppnum voru umsjónarmenn skógarins látnir vita sem og heilbrigðisyfirvöld á Akureyri. Frá því viðarkveifin fannst árið 2000 hafa umsjónarmenn skógarins fylgst með henni og fjarlægt aldin sem þeir finna.

Banvænt eitur

Það er ástæða til að vara fólk við því að borða litla brúna sveppi. Sumir þeirra innihalda svo hættuleg eiturefni að sé þeirra neytt valda þeir varanlegum skaða á nýrum, lifur og meltingarfærum sem hefur leitt til dauða í 10-60% tilfella.

Viðarkveifin Galerina marginata inniheldur amatoxín, en það er hringlaga peptíð sem ræðst á kjarna frumna og stöðvar próteinframleiðslu þeirra og þar með hæfni þeirra til að skipta sér og mynda nýjar frumur. Banvænn skammtur eitursins er aðeins 0,1 mg / kg og mun skammtur sem rúmast í 2 matskeiðum duga til að valda varanlegum skaða í mannslíkamanum. Eitrið í viðarkveifinni er það sama og í Amanita virosa og Amanita phalloides þeim ættingjum berserkjasveppsins sem valda meirihluta banvænna sveppaeitrana í heiminum. Einkennin koma fram 6-12 tímum eftir að sveppsins var neytt og byrja með uppköstum, niðurgangi og slæmum magakvölum sem vara í 1-3 sólarhringa þá lagast menn um tíma en 5-7 dögum eftir neyslu fer að bera á einkennum lifrarskaða og nýrnabilunar og að lokum missir sjúklingurinn meðvitund og deyr.

Nánari upplýsingar um viðarkveifina og aðra eitursveppi í Noregi má fá á vef Norges sopp- og nyttevekstforbund (Norska sveppa- og nytjajurtasambandsins).

Það er ekki til nein regla til að þekkja úr eitraða sveppi, nema að þekkja tegundirnar. Aðferðin við að tína sveppi sér til matar er sú að læra að þekkja fáeina góða matsveppi og halda sig við þá til matar en njóta allra annarra sveppa með hinum skynfærunum.

Lýsing

Viðarkveif Galerina marginata er frekar lítill brúnn hattsveppur. Hatturinn er gulbrúnn eða súkkulaðibrúnn, hvelfdur (tæp hálfkúla), 1-5 cm breiður og venjulega er hattbarðið markað röndum þar sem dekkri rákir yfir fönum skiptast á við ljósari þar sem einungis er um að ræða þunnt hattbarðið. Í raka er hatturinn sléttur og rakur og fitugur ásýndum en í þurrki breytist liturinn í mun ljósari tón og yfirborðið verður þurrt og slétt. Litur fananna ræðst af lit gróanna og verða þær brúnar, eru nokkuð þéttar og festar beint á stafinn. Stafurinn er 2-6 cm langur og 2-6 mm breiður, með ræfilslegum hring (sem getur dottið af þegar sveppurinn eldist), en ofan hans er stafurinn brúnleitur en neðan hringsins er hann gráyrjóttur þar sem brúnn litur skín gegnum gráleitt yfirborðið. Stafurinn dökknar smám saman og byrjar neðst. Hvít hula er yfir fönunum á ungum sveppum, rifnar og verður að hringnum. Lykt er ekki áberandi.

Viðarkurlið er víða

Þar sem viðarkurl hefur verið notað í fjölda fjölfarinna göngustíga víða um land á síðustu árum er greinilegt að víða er tilbúið kjörlendi fyrir viðarkveifina sem ekki hefur verið til staðar áður. Þessi stórhættulegi eitursveppur er svo sem ekki sérlega girnilegur að sjá, frekar lítill og ræfilslegur og ekki matarmikill og því vonandi ekki mikil hætta á að sveppatínslumenn ruglist á honum og ætum sveppum. Honum svipar meira til þeirra sveppa sem valda ofskynjunum, en sem betur fer vex hann á viði en ekki í grasi þannig að það ætti að minnka hættuna á því að óreyndir fíklar í leit að ofskynjunum éti hann. Sé sveppurinn ekki étinn er hann aðeins venjulegur fúasveppur í rotnandi viði, ein þeirra þörfu lífvera sem sjá um hringrás efna í náttúrunni. Og vegna þess að manni er aðeins gefið eitt líf þá skal enn og aftur minnt á þá gullnu reglu sveppaætunnar að borða aðeins þá sveppi sem þeir þekkja með nafni og vita að eru ætir og óskemmdir. Það er nóg til af öruggum ljúffengum matsveppum í íslenskri náttúru.

Ef grunur vaknar um að sveppir séu valdir að óþægindum svo sem magakrampa, uppköstum, niðurgangi o.s.frv., skal taka það skýrt fram við komu á slysamóttöku og best er að hafa meðferðis sýni af sveppunum sem grunaðir eru um að valda eitruninni.

ágúst 2000, uppfært apríl 2006, Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir