Gróðurkort

Gróðurkort sýna mörk gróðurfélaga og landgerða. Gróður er flokkaður eftir ríkjandi tegundum í gróðurfélög sem síðan eru dregin saman í gróðurlendi. Þar sem gróðurþekja er minni en 10% flokkast land sem lítt eða ógróið og er þá flokkað eftir landgerð.

Á vettvangi eru notuð stafræn myndkort sem teiknað er inn á. Undanfarin ár hafa nákvæmar innrauðar myndir (Spot 5) verið notaðar sem viðbótargögn við myndkortin en þær koma að góðum notum við gróður- og landgreiningu.

Gróðurkort af Íslandi. Yfirlitskort

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur gefið út gróðurkort af Íslandi í mælikvarða 1:500.000. Kortið er yfirlitskort sem sýnir einfalda samantekt á ríkjandi gróðursamfélögum. Kortlagning er byggð á fyrirliggjandi gróðurkortagögnum, loftmyndum, gervitunglamyndum og korti Skógræktar ríkisins af birkiskógum og kjarri. Gróðurkortið var gefið út árið 1998.

Lýsigögn

Niðurhal

Gróðurkort af miðhálendi Íslands

Unnið er að heildstæðu gagnasafni landupplýsinga um gróður á Íslandi í viðmiðunarmælikvarða 1:25.000. Úr þessu gagnasafni hefur verið gefið út gróðurkort af miðhálendi Íslands, alls um 42.700 km2 eða um 41% af landinu. Unnið er að því að kortleggja eldri gögn af láglendi Íslands og koma þeim á stafrænt form og vonast er til að því verði lokið innan fárra ára. Þá verður til heildstætt gagnasafn landupplýsinga um gróðurfar á Íslandi í nákvæmum mælikvarða.

Lýsigögn

Niðurhal

Gróður- og jarðakort (Rala) 1:25.000

Gróður- og jarðakort, alls 28 kortblöð í mælikvarðanum 1:25.000, sýna 5 flokka gróðursamfélaga, aðgreind hvert með sínum lit, sem skiptast í 8 gróðurlendi. Þau sýna einnig landgerðir, landamerki jarða, hreppa- og sýslumörk. Kortin voru unnin á árunum 1977-1987 og gefin út af Rannsóknastofnun landbúnaðarins (Rala).

Blaðskipting (pdf)

Lýsigögn

Niðurhal (tiff, hnitsett)

Gróður- og jarðakort (Rala) 1:20.000 (Byggðakort)

Gróður- og jarðakort, alls 11 kortablöð í mælikvarðanum 1:20.000 og oft nefnd byggðakort, sýna gróðurfélög, landgerðir, landamerki jarðeigna, hreppa og sýslumörk. Gróður er flokkaður í um 90 gróðurfélög og byggir gróður- og landgreining á gróðurlykli sem Steindór Steindórsson tók saman. Kortin voru unnin á árunum 1968-1977 og gefin út af Rannsóknastofnun landbúnaðarins (Rala).

Blaðskipting (pdf)

Lýsigögn

Niðurhal (tiff, hnitsett)

Gróðurkort af Íslandi (Rala) 1:40.000 (Hálendiskort)

Gróðurkort, alls 65 kortablöð í mælikvarðanum 1:40.000 og oft nefnd hálendiskort, sýna gróðurfélög og landgerðir á hálendi Íslands, afréttum og öðrum svæðum. Tilgangur þeirra var að ákvarða beitarþol og stjórna nýtingu beitilanda. Gróður- og landgreining byggir á gróðurlykli sem Steindór Steindórsson tók saman. Kortin voru unnin á árunum 1961-1980 og gefin út af Rannsóknastofnun landbúnaðarins (Rala) og Menningarsjóði.

Blaðskipting (pdf)

Lýsigögn

Niðurhal (tiff, hnitsett)