Njóli (Rumex longifolius)

Útbreiðsla

Hann hefur snemma flutst inn í landið af mannavöldum og vex enn í dag einkum í kauptúnum og á sveitabæjum. Hann hefur sums staðar breiðst nokkuð út í óræktað land. Hann finnst yfirleitt ekki til fjalla né langt frá byggð (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Hann er áburðarfrekur og hleypur oft ofvöxtur í hann þar sem áburðarríkt ræktarland er yfirgefið og verður stundum einráður í fyrrverandi kartöflugörðum (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Vistgerðir

Slæðingur kringum bæi, á ruslahaugum, meðfram vegum, getur myndað þéttar breiður í landi sem fellur í órækt. Hann hefur sums staðar breiðst nokkuð út í óræktað land og kann þá best við sig í bleytum, flæðum og árfarvegum (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Lýsing

Stórvaxin jurt (50–130 sm) með stór, löng blöð og langar, grænar blómskipanir. Blómgast í júní–júlí.

Blað

Stöngullinn sívalur, gáraður og allgildur (5–15 mm). Blöðin stilkuð, lensulaga með sterklegum miðstreng og slímkenndu slíðri við blaðfótinn. Stofnblöðin 15–30 sm löng og 5–10 sm breið (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin mörg og lítil í samsettum blómskipunum. Blómin leggjuð, tvíkynja. Blómhlífin sexblaða. Innri blómhlífarblöðin þrjú lykja þétt um aldinið og verða stór, tennt, sporbaugótt eða hjartalaga með aldrinum. Þau ytri eru mjórri og styttri, græn með rauðum jaðri og beygjast niður með aldrinum. Fræflar sex. Ein þrístrend fræva með þrjú, rauð og greind fræni (Hörður Kristinsson 1998).

Útbreiðslukort

Myndir

Author

Hörður Kristinsson 2007

Slæðingur kringum bæi, á ruslahaugum, meðfram vegum, getur myndað þéttar breiður í landi sem fellur í órækt. Hann hefur sums staðar breiðst nokkuð út í óræktað land og kann þá best við sig í bleytum, flæðum og árfarvegum (Hörður Kristinsson 1998 og floraislands.is).

Biota