Erfðafræðilegur uppruni birkis í nýlegri framvindu á Skeiðarársandi

Tímamörk

Verkefni sem nær til áranna 2017–2021.

Samstarfsaðilar

Verkefnið er hluti af styrktu Rannís-verkefni sem ber heitið „Landnám birkis í frumframvindu og áhrif þess á vistkerfið“ sem þær Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor við Háskóla Íslands og Kristín Svavarsdóttir sérfræðingur hjá Landgræðslu ríkisins stýra. Kristinn P. Magnússon hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskólanum á Akureyri skipulagði erfðarannsóknina og vann úr gögnum með Snæbirni Pálssyni við Háskóla Íslands.

Styrkir

RANNÍS.

Um verkefnið – Markmið og verkþættir

Á Skeiðarársandi er að vaxa upp einn stærsti birkiskógur landsins en talið er að þar hafi birki fyrst sáð sér um 1996. Nú nær útbreiðsla þess yfir um 40 ferkílómetra af sandinum og hæstu trén eru orðin um þrír og hálfur metri á hæð. Markmið verkefnisins er að afla upplýsinga um landnám birkis á Skeiðarársandi og áhrif þess á þróun vistkerfa á sandinum.

Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskólinn á Akureyri tóku að sér að úrskurða um uppruna birkiskógarins. Greint var erfðaefni úr birkisýnum frá Skeiðarársandi, úr Bæjarstaðaskógi, Núpsstaðaskógi og af Skaftafellsheiði. Skoðuð voru um tvö prósent erfðamengisins og alls voru borin saman um þrjátíu þúsund erfðamörk. Rannsóknin hefur leitt í ljós að Bæjarstaðaskógur og Núpsstaðaskógur eru mjög gamlir skógar sem hafa ekki blandast mikið og hafa þeir líklega verið aðskildir í þúsundir ára. Birkið í Bæjarstaðskógi og Skaftafellsheiði sýna talsverðan skyldleika sem gæti útskýrst af flæði erfðaefnis á milli skógana tveggja. Þegar erfðabreytileiki í birkiplöntum sem vaxa upp á Skeiðarársandi er borinn saman við birkiplöntur úr gömlu skógunum áðurnefndu kemur í ljós sterkur skyldleiki við birki úr Bæjarstaðaskógi, að litlum hluta við birki af Skaftafellsheiði, og hverfandi við birki úr Núpsstaðaskógi. Niðurstöðurnar sýna ótírætt að birkið úr Bæjarstaðskógi sé að nema land á Skeiðarársandi.

Nánari upplýsingar

Umfjöllun um verkefnið í Landanum á RÚV 24. september 2017

Viðtal við Kristinn P. Magnússon í Landanum á RÚV 30. mars 2020

Niðurstöður 

Magnússon K.P., S. Pálsson, Þ.E. Þórhallsdótitir og K. Svavarsdóttir 2020. Magnússon, K.P., S. Pálsson, Þ.E. Þórhallsdótitir og K. Svavarsdóttir 2020. The search for the origin of the nascent birch forest on Skeiðarársandur: genetic comparison with the neighboring birch woodlands south of Vatnajökull. Veggspjald kynnt á norrænu vistfræðiráðstefnunni, 4th Conference on the Nordic Society Oikos, 3.–5. mars 2020, Reykjavík.

Kristinn P. Magnússon 2019. The colonization of downy birch (Betula pubescens) in early succession at Skeiðarársandur south of Vatnajökull is originated from Skaftafell. Erindi flutt á VISTÍS, ráðstefnu Vistfræðifélags Íslands, Hólum í Hjaltadal, 29.–30. apríl 2019.

Tengiliður

Kristinn Pétur Magnússon, sérfræðingur í erfðavistfræði á Náttúrufræðistofnun Íslands og prófessor í sameindaerfðafræði við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri.