Vöktun mófugla

Tímamörk

Langtímaverkefni, hófst árið 2006

Um verkefnið – Markmið og verkþættir

Markmið vöktunarinnar er að meta varpþéttleika og stofnsveiflur fugla sem í daglegu tali kallast mófuglar. Er þar aðallega um að ræða vaðfugla en auk þess tegundir eins og þúfutittling og rjúpu.

Vöktun mófugla hófst á Mýrum í Borgarbyggð í kjölfar sinuelda sem brunnu á svæðinu vorið 2006. Talningarnar fara fram innan svæðisins Mýrar-Löngufjörur sem hefur verið tilnefnt á B-hluta Náttúruminjaskrár. Einnig hafa farið fram talningar í Austur-Landeyjum frá árinu 2007 sem hófust í tengslum við rannsóknir vegna fyrirhugaðs Bakkafjöruvegar. Auk mófugla eru aðrar tegundir sem sjást við athuganir skráðar.

Þéttleiki mófugla er metinn með punkttalningum. Talningar fara fram um svipað leyti ár hvert (yfirleitt í annarri viku júní) til að gæta samræmis á milli ára en hafa stöku sinnum fallið niður vegna óhagstæðs veðurs. Þéttleikinn er reiknaður út frá svokölluðum sýnileikaföllum (e. detection functions) en aðferðafræðin byggir á því að líkurnar á að því að greina viðfangsefnið minnkar með aukinni fjarlægð auk þess sem sýnileiki einstakra tegunda er mjög misjafn.

Niðurstöður

Mófuglatalningar á Íslandi – smellið á ör neðst í hægra horni til að stækka grafið

Bráðabirgðaniðurstöður hafa verið teknar saman og birtar í ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands 2019.

Tengiliður 

Borgný Katrínardóttir, líffræðingur.