Skordýr (Insecta)

Almennt

Skordýr hafa þrískiptan bol sem skiptist í höfuð, frambol og afturbol. Á höfði eru tveir fálmarar og tvö samsett augu. Frambolur er gerður úr þrem samgrónum liðum, samskeytin oft ógreinileg. Á honum eru þrjú pör fóta, eitt á hverjum lið, oftast tvö pör vængja, annað á miðlið hitt á afturlið, vængir stundum ummyndaðir, stundum hefur annað parið, jafnvel bæði, þróast burt. Frumstæðustu skordýr hafa aldrei haft vængi. Þeir koma fram síðar á þróunarleiðinni. Afturbolur er að grunni til gerður úr 11 liðum. Liðskiptingin er greinileg, þó sjaldnast sjáist merki um alla grunnliðina. Þeir öftustu hafa oftast tekið þátt í að móta kynfæri og aðrir kunna að vera samgrónir. Afturbolur er án útlima að undanskildum leifum fóta á frumstæðustu formum.

Skordýr eru afar mikilvæg í náttúrunni og nauðsynleg í ýmsum ferlum, s.s. niðurbroti lífrænna efna og frævun blóma. Þau eru lífsnauðsynleg fæða fyrir aragrúa dýra og jafnvel plöntur. Skordýr eru ómissandi í vistkerfum lands og ferskvatns og er þjónusta þeirra við vistkerfin bráðnauðsynleg fyrir afkomu mannsins.

Skordýr eru tegundaríkasti flokkur dýra í heiminum. Flokkun þeirra er í stöðugri þróun jafnt á plani tegunda sem hærri flokkunareininga. Sem stendur eru ættbálkar skordýra í heiminum 27 talsins. Yfir milljón tegundum skordýra hefur verið lýst sem er helmingur þekktra tegunda lífvera. Talið er að tegundirnar séu í raun á bilinu 6-10 milljónir og að um 90% dýrategunda séu skordýr. Á Íslandi hafa fundist fulltrúar 19 ættbálka. Um 1.375 tegundir eru landlægar eða gestir hér fyrir eigið tilstilli. Um 280 tegundir sem slæðst hafa til landsins með innfluttum varningi hafa verið nafngreindar. Nokkrar tegundir hafa átt hér tímabundna búsetu.

Höfundur

Erling Ólafsson 16. nóvember 2015

Biota