Starfsmannastefna

Markmiðið með starfsmannastefnunni er að Náttúrufræðistofnun hafi alltaf á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum sem geta tryggt nauðsynlegt frumkvæði í störfum, veitt góða þjónustu og brugðist við síbreytilegum þörfum stofnunarinnar. Starfsmannastefnan á að tryggja starfsmönnum ákveðin starfsskilyrði og möguleika á að vaxa og dafna í starfi. Leitast skal við að skapa starfsmönnum aðstæður til að samræma starf og fjölskyldulíf.

Leiðarljós:

 • Virðing fyrir samstarfsmönnum
 • Samvinna og sveigjanleiki
 • Jafnræði
 • Þekking og frumkvæði
 • Þjónustulund

Í þessu felst að stjórnendur stofnunarinnar:

 • Virði alla starfsmenn sína og viðhorf þeirra
 • Virki starfsmenn til að móta og bæta starfsemina
 • Starfi í anda jafnræðis og jafnréttis
 • Stuðli að því að starfsmenn geti aukið þekkingu sína og starfshæfni
 • Leggi áherslu á gæði starfs
 • Upplýsi starfsmenn um hlutverk þeirra og ábyrgð

Þetta gerir þær kröfur til starfsmanna að þeir:

 • Virði samstarfsmenn sína
 • Séu viðbúnir þróun og breytingum og taki þátt í þeim
 • Viðhaldi þekkingu sinni og auki við hana
 • Sinni starfi sínu af trúmennsku og metnaði
 • Sýni ábyrgð

1 Ráðningar- og starfsréttindi

1.1 Laus störf
Náttúrufræðistofnun skal auglýsa laus störf í samræmi við reglur ríkisins og gæta skal jafnræðis í ráðningarferlinu. Ráðning á að byggjast á hæfni umsækjanda til að inna auglýst starf af hendi. Gengið skal frá ráðningu með formlegum hætti.

1.2 Jafnrétti
Þess skal gætt að gera ekki upp á milli starfsmanna í kjörum vegna kynferðis, kynþáttar, stjórnmála- eða trúarskoðana eða af öðrum ómálefnalegum ástæðum. Stjórnendum ber að stuðla að markvissri aðlögun erlendra starfsmanna á vinnustað. Jafnræðisreglan skal ávallt höfð í huga og gildir hún m.a. þegar um er að ræða laun, launatengd fríðindi og hvers konar þóknun fyrir vinnu.  Sama á við þegar teknar eru ákvarðanir um ráðningu í störf, stöðubreytingar, uppsögn starfs, vinnuaðstæður og vinnuskilyrði.  Náttúrufræðistofnun hefur sett sér jafnréttisstefnu sem hún vinnur eftir.

1.3 Starfslýsingar
Stofnunin gerir starfslýsingar fyrir öll störf innan stofnunarinnar.  Starfslýsingar geta tekið breytingum samhliða þróun í starfi. Í starfslýsingum skal lýsa helstu verkefnum og ábyrgðarsviðum auk þess sem getið er um staðgengla þar sem það á við. Starfslýsingar skulu endurskoðaðar reglulega.

1.4 Starfslok
Starfsmenn skulu láta af störfum eigi síðar en í lok þess mánaðar sem þeir verða 70 ára.

Fyrir uppsögn starfsmanns þurfa að vera málefnalegar ástæður. Starfsmaður á rétt á skrif­­legum rökstuðningi fyrir ákvörðun um uppsögn, óski hann þess. Sé um að ræða meintar ávirðingar í starfi, ber yfirmanni að veita áminningu eftir að starfsmaður hefur fengið tækifæri til að tjá sig um málið, nema ávirðingar séu svo alvarlegar að það réttlæti fyrirvaralausa uppsögn. Gefa skal starfsmanni kost á starfslokasamtali við stjórnanda.

2 Símenntun, starfshæfni og starfsþróun starfsmanna

2.1 Símenntun
Náttúrufræðistofnun beitir sér fyrir því að starfsmenn eigi kost á símenntun innan sem utan stofnunar til að auka þekkingu sína og faglega hæfni sem nýtist í starfi. Það er jafnt á ábyrgð starfsmanns sem yfirmanns að viðhalda og bæta fagþekkingu og aðra sérþekkingu sem nauðsynleg er í starfi. Viðleitni starfsmanna til að auka þannig hæfni sína er liður í starfsöryggi þeirra.

2.2 Starfsmannasamtöl
Náttúrufræðistofnun vill að starfsmenn njóti hæfileika sinna í starfi. Þeir eiga rétt á starfsmannasamtölum a.m.k. einu sinni á ári til að tryggja að kröfur og væntingar yfirmanna og starfsmanna séu ljósar og að samráð sé haft um umbætur þar sem þeirra er þörf. Í starfsmannasamtölum er rætt um fræðsluþörf og leiðir til úrbóta. Í samtalinu á starfsmaður að geta rætt líðan sína á vinnustað, frammistöðu og óskir um starfsþróun.

2.3 Starfsþróun
Starfsmenn skulu leitast við að laga sig að þeim kröfum, sem starfið útheimtir, svo sem vegna tæknilegrar og faglegrar þróunar og vera reiðubúnir að þjálfa sig til nýrra og breyttra verkefna. Starfsþróun er á ábyrgð starfsmanns og yfirmanns sem felst meðal annars í símenntun, samvinnu eða að takast á við ný verkefni.

3 Vinnuumhverfi

3.1 Samskipti
Náttúrufræðistofnun vill stuðla að góðum starfsanda og að traust og jafnræði ríki í samskiptum milli starfsmanna sinna og milli starfsmanna og yfirmanna.

3.2 Aðgerðir ef samskiptareglur eru brotnar
Starfsmaður, sem með orðum, látbragði eða atferli, ógnar, truflar eða ögrar öðrum á vinnustað, leggur starfsmann í einelti eða sýnir honum kynferðislega áreitni, telst brjóta grundvallarreglur samskipta á vinnustað. Slík hegðun getur leitt til áminningar og uppsagnar.

3.3 Vinnuvernd og öryggismál
Náttúrufræðistofnun leitast við að tryggja öllum starfsmönnum sínum gott starfsumhverfi sem fullnægir kröfum um öryggi á vinnustað.

Stjórnendum ber að stuðla að heilbrigðu vinnuumhverfi. Það eru gagnkvæmir hagsmunir Náttúrufræðistofnunar og starfsmanna hennar að vellíðan og heilbrigði starfsmanna sé haft í fyrirrúmi. Starfsmenn bera ábyrgð á að leggja rækt við eigin heilsu. Vinnuumhverfi skal vera eins hættulaust og kostur er, en jafnframt ber starfsmönnum að fylgja þeim kröfum, sem gerðar eru til þeirra, um öryggi og gætni í starfi. Þar sem meðferð hættulegra efna er nauðsynleg skal tryggja að fyllsta öryggis sé gætt og skýrt kveðið á um hvernig brugðist skuli við óhöppum og hættu.

Ávallt skal skipaður sérstakur öryggistrúnaðarmaður starfsmanna sem gætir þess að skýrt sé kveðið á um hvernig bregðast skuli við óhöppum og hættuástandi.  Öryggistrúnaðarmaður á jafnframt að koma ábendingum starfsmanna áleiðis til yfirstjórnar um það sem betur má fara í öryggismálum.

3.4 Vinnustaður án vímuefna

Náttúrufræðistofnun er reyklaus vinnustaður. Notkun vímuefna starfsmanna við störf er óheimil.

3.5 Samræming vinnu og einkalífs
Náttúrufræðistofnun skapar starfsmönnum sínum aðstæður til að samræma starf og einkalíf eins og kostur er. Þeim skal gert kleift að minnka við sig vinnu tímabundið eða stunda hlutastörf vegna fjölskylduábyrgðar. Stjórnendur skulu hvetja væntanlega foreldra til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs. Jafnframt skulu þeir hvetja karla til að vera heima hjá veikum börnum til jafns á við konur.

3.6 Sveigjanlegur vinnutími
Stofnunin leitast við að koma til móts við óskir starfsmanna um sveigjanlegan vinnutíma þar sem slíku verður við komið.  Vinnutími starfsmanna Náttúrufræðistofnunar er átta tímar á dag ef miðað er við fullt starf, frá mánudegi til föstudags.  Vinnutíminn er sveigjanlegur að því marki að starfsmenn geta mætt milli kl. 7:30 og 9 á morgnana. Auk þess geta starfsmenn leitað eftir samþykki forstöðumanna um meiri sveigjanleika, bæði hvað varðar vinnutíma og þann stað sem starfið er leyst af hendi á, og er þá forstöðumanna að meta hvort slíkt er unnt og í hve miklum mæli. Samþykki forstjóri tillögu forstöðumanns skal gengið frá samningi þar að lútandi við starfsmann með formlegum hætti (skriflega).

3.7 Veikindi
Veikindi geta hent alla og reynt er að koma til móts við starfsfólk í veikindum þess, veikindum barna eða alvarlegum veikindum maka.  Á móti kemur að starfsfólki ber að skila vottorði ef um veikindi umfram þrjá vinnudaga er að ræða og eins ef næsti yfirmaður óskar eftir því.

4 Launamál og launaákvarðanir

4.1 Launastefna
Markmið Náttúrufræðistofnunar er að hæfir starfsmenn veljist til starfa og að þeir uni hag sínum og hafi metnað til að takast á við þau verkefni sem bíða úrlausnar. Launastefnu stofnunarinnar er ætlað að tryggja að starfsmenn hennar njóti a.m.k. sambærilegra kjara og tíðkast hjá stofnunum með líka starfsemi eins og menntun og hæfni starfsmanna kveður á um. Laun geta verið árangurstengd ef samkomulag næst um slíkt milli starfsmanna og stofnunar. Að öðru leyti ráðast laun af kjarasamningum og fjárhagslegu svigrúmi stofnunarinnar.

Forstjóri og trúnaðarmenn fylgjast með launaþróun.

4.2 Launaákvarðanir
Launaákvarðanir skulu vera gagnsæjar og málefnalegar. Mikilvægt er að laun taki mið af þeim kröfum sem starf gerir til starfsmanns með tilliti til ábyrgðar, álags og sérhæfni. Einnig er mikilvægt að laun taki mið af hæfni og frammistöðu starfsmanna og hvetji starfsmenn til að leggja sig fram í starfi.

5 Ábyrgð og skyldur stjórnenda og annarra starfsmanna

5.1 Markmiðssetning
Stjórnendur og starfsfólk bera sameiginlega ábyrgð á að langtímamarkmiðum Náttúrufræðistofnunar sé náð. Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar vinnur eftir markmiðum sem stjórnendur stofnunarinnar hafa sett fram og hafa verið kynnt. Forstjóri Náttúrufræði­stofnunar setur fram markmið sem hann hefur unnið með forstöðumönnum í samráði við fagsviðsstjóra og aðra starfsmenn. Forstöðumenn gera áætlanir um leiðir til að ná þessum markmiðum, tímasetja og áætla kostnað í samráði við þá starfsmenn sem bera ábyrgð á viðkomandi málaflokkum. Þegar unnið er að stóru verkefni sem gengur þvert á deildir er skipaður verkefnisstjóri sem stýrir verkinu í samráði við viðkomandi forstöðumenn.

5.2 Skyldurækni
Starfsmenn eiga að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi. Þeir eiga að vinna með öðrum starfsmönnum af heilindum að markmiðum sem starfseminni eru sett. Þeim ber að virða trúnað um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu. Þessi þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum. Starfsmenn eiga að gæta þess að framkoma þeirra og athafnir samrýmist því starfi sem þeir gegna. Starfsmenn eiga ekki að þiggja greiðslur eða annan viðurgjörning frá viðskiptamönnum ef túlka má það sem þóknun fyrir óeðlilegan greiða til að liðka fyrir upplýsingum.

Áður en starfsmaður hyggst, samhliða starfi sínu, taka við launuðu starfi í þjónustu annars aðila ber honum að skýra forstjóra frá því. Forstjóri metur í samráði við starfsmann hvort fyrirhugað starf er ósamrýmanlegt starfi hans við stofnunina.

6 Eftirlit með framkvæmd

Starfsmannastjóri hefur umsjón með starfsmannamálum stofnunarinnar og gætir þess að samræmis sé gætt og að heildarhagsmunir ráði ákvörðunum í starfsmannamálum.