Umhverfis- og loftslagsstefna

Náttúrufræðistofnun Íslands stefnir að því að verða vistvænn vinnustaður í fremstu röð og til fyrirmyndar í loftslagsmálum. Til þess að ná því markmiði hefur stofnunin mótað sér umhverfis- og loftslagsstefnu. Í henni er lögð áhersla á að sjónarmið umhverfisverndar og það að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni verði haft að leiðarljósi í rekstri og stjórnun stofnunarinnar. Mikilvægt er að allir starfsmenn séu virkir við framkvæmd umhverfis- og loftslagsstefnunnar og leggi þannig sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamningsins sé náð og taki virkan þátt í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Stefnan tekur til allrar starfssemi Náttúrufræðistofnunar Íslands á starfstöðvum hennar í Garðabæ, á Akureyri og Breiðdalsvík.

Markmið umhverfis- og loftslagsstefnu

 • Minni orkunotkun
 • Minni losun gróðurhúsalofttegunda og að 2030 verði losun 40% minni en 2019
 • Umhverfisvæn viðskipti
 • Minna sorp – auka hlut endurnýtingar, endurvinnslu og skilum á spilliefnum
 • Vistvænar samgöngur, fundir og flutningar
 • Kolefnisjafna losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfseminnar
 • Sérstök gát á eiturefnum sem stofnunin notar
 • Bætt vinnuumhverfi

Leiðir

Náttúrufræðistofnun Íslands heldur Grænt bókhald til að hægt sé að fylgjast með helstu umhverfisþáttum starfseminnar og leitast við að tryggja að þróun hennar sé jákvæð fyrir umhverfið.

Leiðir til að ná markmiðum umhverfis- og loftslagsstefnunnar felast m.a. í:

a. Minni orkunotkun

Í lok hvers starfsdags verði gengið úr skugga um að slökkt hafi verið á öllum ljósritunar­vélum, prenturum og öðrum tækjum. Slökkt sé á ljósum yfir sumartímann og í herbergjum sem ekki er verið að vinna í.

b. Umhverfisvænum innkaupum

Náttúrufræðistofnun stundar umhverfisvæn innkaup að því marki sem slíkt er gerlegt með hliðsjón af gæðum og kostnaði. Í þeim tilgangi leitast stofnunin við að:

 • Kaupa ekki vörur sem unnar eru úr efniviði sjaldgæfra tegunda (t.d. viði)
 • Forðast kaup á vörum frá fyrirtækjum sem nota börn sem vinnuafl við framleiðslu sína
 • Forðast notkun á vörum sem innihalda lífræn leysiefni, sem eru skaðleg umhverfi og heilsu manna
 • Kaupa orkusparandi tæki og ljósabúnað

c. Minna sorpi

 • Draga úr pappírsnotkun, t.d. að ljósritað verði báðum megin á pappír eins og hægt er og að pappír sem eingöngu er búið að prenta á öðrum megin verði notaður aftur.
 • Draga úr notkun hreingerningarefna eins og kostur er.
 • Safna öllum endurvinnanlegum pappír og senda í endurvinnslu.
 • Safna bylgjupappa og senda í endurvinnslu.
 • Safna ónýtum rafhlöðum og senda í spilliefnamóttöku.
 • Safna öllum dósum og endurvinnanlegum drykkjarumbúðum (plastflöskum, gleri og mjólkurfernum) sem til falla á stofnuninni og senda til endurvinnslu.
 • Safna öllum matarafgöngum og senda í jarðgerð.
 • Nýta skrifstofubúnað eins vel og kostur er.

d. Vistvænum samgöngum, fundum og flutningum

 • Stuðla að vistvænum samgöngum t.d. með notkun strætisvagna og samnýtingu bíla.
 • Hvetja starfsmenn til að ganga, hjóla og/eða taka strætisvagna til og frá vinnu.
 • Fjölga fjarfundum og auka notkun fjarfundabúnaðar í starfsemi stofnunarinnar.
 • Hvetja til sparaksturs.

Árangursmat – umhverfisvísar

Árangur þarf að vera sýnilegur og metanlegur í formi umhverfisvísa og notast verður við niðurstöður Græna bókhaldsins til þess. Mögulegir umhverfisvísar eru eftirfarandi:

 • Heildarnotkun á rafmagni NÍ í kwh, notkun kwh/starfsmann eða setri.
 • Innkaup á umhverfismerktri vöru, innkaup vöru sem ekki inniheldur leysiefni.
 • Mat á heildarnotkun ýmissa efna og skrifstofutækja.
 • Kannanir á samnýtingu, hvatning til að ganga eða hjóla í vinnuna.

Umhverfis- og loftslagsnefnd

Innan Náttúrufræðistofnunar starfar umhverfis- og loftslagsnefnd og í henni situr einn fulltrúi tilnefndur af forstjóra og tveir fulltrúar tilnefndir af starfsmannafélögum. Hlutverk nefndarinnar er að sjá til þess að umhverfis- og loftslagsstefnu stofnunarinnar verði framfylgt og að vera ráðgjafi starfsmanna og stjórnenda í þessum málum. Umhverfis- og loftslagsnefnd skal hafa yfirsýn yfir lög og reglur síns málaflokks og fylgjast með og ýta undir bætta skipan mála. Nefndin skal tryggja að umhverfis- og loftslagsstefna stofnunarinnar verði endurskoðuð reglulega og kynnt nýjum starfsmönnum þegar þeir hefja störf. Nefndin skal halda a.m.k. tvo formlega fundi, fjarfundi, á ári hverju, skrifa fundargerð og skila í ársskýrslu yfirliti um hvernig til hafi tekist í málaflokknum á árinu. Umhverfis- og loftslagsnefnd skal:

 • Meta stöðu umhverfismála innan stofnunarinnar
 • Gera áætlun um aðgerðir og markmið til umhverfisbóta í starfsemi stofnunarinnar
 • Sinna stöðugu eftirliti og endurmati á umhverfis- og loftslagsmálum stofnunarinnar og tryggja að settum markmiðum verði náð (gátlisti)
 • Kynna starfsmönnum nýjungar
 • Koma með tillögur að bættri umhverfis- og loftslagsstefnu

Náttúrufræðistofnun hefur haldið Grænt bókhald frá árinu 2011 og uppfyllti starfsstöðin í Garðabæ 5. skrefið í Grænu skrefunum 2018. Til að hvetja starfsfólk sitt til að taka upp umhverfisvænan samgöngumáta býður stofnunin þeim upp á samgöngusamninga.