Túnsúra (Rumex acetosa)

Útbreiðsla

Algeng um allt land frá láglendi og upp í 800–900 m hæð (Hörður Kristinsson - floraislands.is).

Almennt

Sýran í plöntunni ver túnsúruna fyrir sniglum og slíkum meindýrum en búfénaður sækir aftur á móti í hana og þaðan hefur hún líklega fengið nöfnin lambasúrur og lambablöðkur. Hins vegar er nafnið hundasúra hvað mest notað af almenningi þó í bókum sé nafnið túnsúra notað af grasafræðingum (Ágúst H. Bjarnason 1994).

Nytjar

Túnsúra er mjög góð við bjúg, hún er talin örva og styrkja lifrina. Hún er góð við lystarleysi, hægðatregðu og gyllinæð svo fátt eitt sé nefnt (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Líffræði

Túnsúra inniheldur m.a. oxalsýru, antrakínóna, barksýrur og vítamín á borð við A-, B- og C-vítamín (Arnbjörg Linda Jóhannsdóttir 1998).

Vistgerðir

Graslendi og tún, mólendi og gróðursælar lautir, sækir í áburðaríka jörð (Hörður Kristinsson 1998).

Lýsing

Meðalhá planta (20–40 sm) með örlaga blöð og mörg blóm í rauðleitum, aflöngum, blómklösum á stöngulendum. Blómgast í maí–júní.

Blað

Stöngullinn gáraður. Blöðin stakstæð, slíðurfætt, örlaga, þau neðstu stilkuð (Hörður Kristinsson 1998).

Blóm

Blómin mörg í klasaleitum blómskipunum í blaðöxlunum, einkynja í sérbýli. Blómhlífarblöð sex, á karlblómunum ýmist græn, rauðbrydduð eða alrauð, 2–3 mm á lengd, himnurend. Sex fræflar. Kvenblómin með þrem niðurbeygðum blómhlífarblöðum og þrem uppréttum sem lykja um þrístrenda frævuna og standa þrjú marggreind fræni út á milli þeirra (Hörður Kristinsson 1998).

Greining

Líkist helst hundasúru en túnsúra þekkist best á blaðlögun, hornin neðst á blöðkunni vísa niður en eru ekki útstæð eins og á hundasúru.

Útbreiðslukort

Author

Hörður Kristinsson 2007

Graslendi og tún, mólendi og gróðursælar lautir, sækir í áburðaríka jörð (Hörður Kristinsson 1998).

Biota