Víðifeti (Hydriomena furcata)

Útbreiðsla

Norðurhvel. Gjörvöll Evrópa frá norðurslóðum suður til Miðjarðarhafs, austur eftir Asíu til Kyrrahafs, N-Ameríka.

Ísland: Láglendi um land allt, mun algengari á landinu sunnanverðu en norðanlands, á miðhálendinu einungis fundinn í Fagradal á Brúaröræfum.

Lífshættir

Víðifeti á sér kjörlendi í víðikjarri og skóglendi og trjárækt með víði (Salix) og öspum (Populus), einnig í húsagörðum í þéttbýli. Flugtími hefst upp úr miðjum júlí og getur teygst fram í miðjan september. Hámarkið er um mánaðamótin júlí/ágúst. Lirfurnar éta fyrst og fremst lauf víðitegunda, sem þær spinna saman með spunaþráðum sínum. Þær geta einnig lagst á aspir og bláber (Vaccinium). Ræktaðar víðitegundir í görðum, t.d. viðja (Salix borealis) verða gjarnan illa fyrir barðinu á sólgnum lirfunum, sem vaxa upp fyrri hluta sumars (júní) og púpa sig fullvaxnar undir visnum laufum á jörðu. Eggin brúa veturinn.

Almennt

Víðifeti er algengt fiðrildi í kjörlendi sínu. Hann sést helst á flugi að kvöldi til. Fiðrildi á flögri innanbæjar á góðviðriskvöldum í seinni hluta júlí og fyrrihluta ágúst eru mörg þessarar tegundar. Flestir sem unna garði sínum kannast við svörtu lirfurnar með hvítu línunum tveim sem kunna að stórskaða víðinn í garðinum á fáeinum dögum í júní. Þær eru því illa þokkaðir skaðvaldar í görðum. Stundum má einnig sjá víðirunna úti í náttúrunni sem hafa greitt víðifetum sinn toll, en hraðvaxta víðir nær jafnan að bæta skaðann þegar lirfurnar hætta beitinni fullvaxnar í lok júní.

Víðifeti er auðþekktur frá öðrum tegundum feta. Framvængirnir eru tiltölulega einsleitir með mjúkri áferð, brúnir, gulbrúnir með hlykkjóttum misgreinilegum saumum þvert yfir vængina. Mynstrið er nokkuð breytilegt eftir einstaklingum, einkennist stundum af grábrúnum og gulbrúnum beltum. Vænghreistrið er tiltölulega viðkvæmt og fer gjarnan að slitna snemma á flugtímanum. Oftast má greina dökka pílu á framhorni vængjanna sem kann að koma að notum við greiningu á slitnum eintökum.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Erling Ólafsson & Hálfdán Björnsson 1997. Fiðrildi á Íslandi 1995. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 32. 136 bls.

Skou, P. 1984. Nordens Målere. Håndbog over de danske og fennoskandiske arter af Drepanidae og Geometridae (Lepidoptera). Danmarks Dyreliv 2. Fauna Bøger & Apollo Bøger, Kaupmannahöfn & Svendborg. 332 bls.

Wolff, N.L. 1971. Lepidoptera. Zoology of Iceland III, Part 45. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 193 bls.

Author

Erling Ólafsson 26. október 2011.

Biota