Berg

Berg (e. rock) er náttúrulegt kristallað eða glerkennt jarðefni, oftast samsett úr mismunandi steindum, gleri eða bergmolum. Berg flokkast í þrjá megin hópa: storkuberg, setberg og myndbreytt berg. Storkuberg er berg sem myndast hefur við storknun bergkviku. Setberg er berg sem myndast hefur við samlímingu og samruna sets. Myndbreytt berg er berg sem hefur myndast við umkristöllun bergs við háan hita og mikinn þrýsting.

Ísland er að mestu byggt upp af storkubergi, setberg er aðeins 8–10 % af rúmmáli landsins og eiginlegt myndbreytt berg finnst ekki á landinu. Fyrstu stig myndbreytingar má þó sjá í borholum á jarðhitasvæðum og við rofnar megineldstöðvar.

Storkuberg

Storkuberg flokkast eftir steinda- og efnasamsetningu. Það skiptist í gosberg og djúpberg. Gosberg myndast þegar bráðin bergkvika storknar á yfirborði jarðar en djúpberg kallast það berg sem storknar á dýpi í jarðskorpunni. Vegna þess hversu Ísland er ungt og lítt rofið er gosberg ríkjandi.

Alls hafa fundist 25 tegundir storkubergs á Íslandi. Það myndar þrjár bergraðir: þóleiísku röðina, milliröðina og alkalísku röðina. Langalgengustu tegundir storkubergs eru þóleiít, ólivínþóleiít, gabbró og rýólít. Í þóleiíti og ólivínþóleiíti eru helstu frumsteindirnar plagíóklas, ágít, ólivín, magnetít og apatít.

Storkubergi er stundum skipt í þrjá meginflokka eftir kísilinnihaldi, basískt, ísúrt og súrt berg. Þetta hefur þó ekkert með sýrustig að gera. Basalt (til dæmis þóleiít og ólivínþóleiít) og gabbró er basískt berg, andesít er ísúrt, rýólít (líparít) og dasít er súrt berg.

Setberg

Setberg flokkast í molaberg, efnaset og lífrænt set. Molaberg er myndað við samlímingu sets (bergmylsnu). Efnaset er myndað við uppgufun eða útfellingu úr vatni. Lífrænt set er myndað úr leifum lífvera.

Molaberg flokkast eftir kornastærð bergbrotanna í hnullungaberg, völuberg, sandstein, siltstein og leirstein. Harðnaður jökulruðningur nefnist jökulberg en í því finnast allar stærðir bergkorna frá leir upp í grettistök. Þursaberg er úr ónúnum bergbrotum af öllum stærðum. Molaberg er einnig flokkað eftir flutningshætti og stundum eftir gerð bergbrotanna, svo sem kvarssandsteinn eða móbergssandsteinn. Efnaset og lífrænt set er fágætt á Íslandi. Þó má nefna mýrarrauða, hverahrúður og surtarbrand.

Myndbreytt berg

Myndbreytt berg flokkast eftir steindasamsetningu og veftu bergsins, sem gefa til kynna hitastig og þrýsting myndbreytingar.

Eiginlegt myndbreytt berg finnst ekki á Íslandi. Hér má þó finna ummyndað berg en það er að hluta til myndbreytt. Nokkuð er um að myndbreytt berg finnist við fjörur landsins og hefur það borist með borgarís frá Grænlandi eða sem kjölfesta í skipum.