Jöklar

Jöklar þekja um 10% af flatarmáli Íslands. Stærstir eru hveljöklarnir á mið- og sunnanverðu landinu og er Vatnajökull þeirra mestur, um 8.100 km2 að flatarmáli og 3.100 km3 að rúmmáli. Hann er jafnframt stærstur jökla í Evrópu að rúmmáli en annar stærstur að flatarmáli. Aðrir stórir jöklar eru Langjökull (900 km2), Hofsjökull (890 km2) og Mýrdalsjökull (560 km2) og fimmti stærsti jökull landsins er Drangajökull (142 km2) á austanverðum Vestfjörðum.

Í helstu fjalllendum landsins og í nágrenni stóru jöklanna finnst fjöldi smærri jökla. Hvilftarjöklar, skálarjöklar og daljöklar eru flestir á Tröllaskaga, um 150 talsins. Á Flateyjarskaga eru þeir um eða yfir 20 talsins og nokkrir finnast á Austfjörðum og norðanverðum Vestfjörðum. Ummerki benda til að talsvert fleiri smájöklar hafi þrifist við kaldara veðurfar á harðinda- og kuldatímabilum seinni alda sem einu nafni eru nefnd „litla ísöld“. Frá upphafi 20. aldar hafa nokkrir smájöklanna horfið vegna hlýnandi veðurfars en leifar sumra finnast sem sífannir.

Jöklar á Íslandi

Stærstu jöklar landsins eru á miðhálendinu og sunnanverðu landinu. Drangajökull, fimmti stærsti jökull landsins, er á norðaustanverðum Vestfjörðum. Á Tröllaskaga finnast langflestir smájöklar landsins, um 150 talsins.

Ferskvatnsforðabúr

Jöklar eru í raun vatn á föstu formi og eru þeir stærsta ferskvatnsforðabúrið sem fyrirfinnst í heiminum. Hér á landi geyma þeir um tuttugufalda meðalársúrkomu og við bráðnun myndi vatnið í þeim öllum duga til að hækka sjávarborð heimsins um 1 cm. Öll mestu vatnsföll landsins eiga upptök sín í jöklum og eru jöklar uppspretta um þriðjungs vatns sem árlega fellur til sjávar á Íslandi.

Jökulís

Jöklar eru seigfljótandi og skríða undan eigin þunga. Þeir myndast þar sem snjóar í áraraðir meira en leysir að sumri. Á Íslandi tekur um 5–6 ár fyrir snjó að umbreytast í jökulís sem hefur eðlisþyngd um 800–850 kg/m3. Þetta gerist þegar eldri snjóafyrningar fergjast af nýrri snjó sem fellur á yfirborðið, snjókorn þjappast saman og loftrými minnkar undir þrýstingi. Við núverandi aðstæður á íslenskum jöklum myndast jökulís á um 20–30 m dýpi.

Þíðjöklar og gaddjöklar

Það á við um jökla að þeir eru annað hvort þíðjöklar eða gaddjöklar. Í þíðjöklum er hitastig íssins um 0°C sem gerir að verkum að ísinn aflagast og flæðir tiltölulega auðveldlega. Þeir eru algengastir í fremur mildu loftslagi þar sem snjóar marga metra á yfirborð jöklana á veturna, eins og á Íslandi, Noregi og sumstaðar í Alaska. Gaddjöklar eru hinsvegar algengir á heimskautasvæðunum og er hitastig þeirra er ætíð vel undir frostmarki. Þeir aflagast og flæða mun hægar en þíðjöklar, auk þess að vera frosnir við undirlag sitt.

Íslenskir jöklar eru almennt þíðjöklar. Líklega er þó gaddur í jökulsporðum Vatnajökuls að norðanverðu og þeir frosnir við undirlag sitt. Vísbendingar benda einnig til að sumir jöklar á Tröllaskaga geti verið að hluta til freðnir.

Jafngangsjöklar

Vegna þess að jökulís er seigfljótandi verður jökullinn ekki stöðugt brattari við uppsöfnun á ákomusvæðum heldur skríður og aflagast ísinn undan eigin þunga og flæðir niður á leysingasvæði þar sem hann bráðnar á endanum. Á íslensku hveljöklunum eru söfnunarsvæðin yfirleitt nokkurskonar hásléttur ofan 1.000–1.300 m hæðar. Skriðjöklar flytja ákomu jökla frá söfnunarsvæðunum niður á leysingarsvæðin, oft langt niður fyrir snælínu. Þar sem snjór og ís bráðnar og hverfur að lokum til sjávar sem rennandi vatn.

Múlajökull
Mynd: Sverrir A. Jónsson

Múlajökull skríður suður úr Hofsjökli um 2 km langa kverk á milli ljósleitra líparítfjalla niður í Þjórsárver. Fjöldi jökulalda hafa myndast framan við jökulinn vegna endurtekinna framhlaupa hans, fremst eru Arnafellsmúlar. Myndin er tekin 2011.

Snælína er hæðarlína sem skiptir jöklum í tvö meginsvæði. Ofan snælínu er ákomusvæði þar sem meiri snjór safnast en nær að leysa á sumrin. Neðan línunnar er leysingasvæði þar sem allur vetrarsnjór bráðnar og oft einhver hluti jökulíss einnig. Jöklar eru mjög háðir veðurfari, afkoma þeirra getur verið jákvæð, neikvæð eða í jafnvægi og byggist hún á samspili snjósöfnunar (ákomu) og leysingar. Jöklar aðlaga sig að veðurfari. Ef ákoma er meiri en sem nemur leysingu bætir jökull við sig massa og bregst við með því að skríða fram og auka flatarmál sitt. Ef leysing er hins vegar meiri en ákoma hörfa jöklar og þynnast. Litlir jöklar, til dæmis daljöklar og skálarjöklar, svara afkomu fljótt en stærri jöklar, eins og Vatnajökull, bregðast yfirleitt við breyttri afkomu á nokkrum árum. Jöklar af þessu tagi, það er jöklar sem bregðast nær jafnharðan við breyttu veðurfari (afkomu), kallast jafngangsjöklar.

Framhlaupsjöklar

Framhlaupsjöklar eru nokkuð ólíkir jafngangsjöklum því þeir bregðast ekki jafnóðum við breytingum í veðurfari og afkomu jöklanna. Í staðin hopa þeir áratugum saman á meðan snjór og ís byggist upp á safnsvæði og eru þá sagðir vera í kyrrfasa. Í kyrrfasanum hækkar yfirborð efri hluta jökulsins vegna snjósöfnunar og á sama tíma þynnist neðri hluti jökulsins vegna leysingar. Við þetta eykst yfirborðshalli jöklanna smámsaman uns ákveðnum þolmörkum er náð, þá stendur jökullinn ekki lengur undir eigin bratta og hleypur fram með látum. Oft hlaupa jöklarnir fram um hundruð metra og jafnvel nokkra kílómetra en framhlaupin taka aðeins nokkra mánuði til örfárra ára. Þetta gerist án nokkurs sérstaks tilefnis í veðurfari.

Brúarjökull í norðanverðum Vatnajökli er einn stærsti framhlaupjökull landsins. Framhlaup hans þykja stórkostleg, hann hleypur nokkra kílómetra á örfáum mánuðum, eða yfir 100 metra á dag þegar mest lætur, á um 70–90 ára fresti. Á Tröllaskaga eru hinsvegar einir allra minnstu framhlaupsjöklar í heimi, Búrellsjökull og Teigarjökull. Framhlaup þeirra ganga mun hægar fyrir sig, þau vara í nokkur ár og verða á 45–60 ára fresti.

Brúarjökull í Vatnajökli
Mynd: Sigurður Þórarinsson

Brúarjökull í norðanverðum Vatnajökli er einn mesti framhlaupsjökull landsins, uppsprunginn og sundurtættur í hlaupfasa haustið 1964.

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |