Súla (Morus bassanus)

Útbreiðsla

Súlan verpur beggja vegna N-Atlantshafs og er algengust við Bretlandseyjar og er stofnþróun hennar óvenju vel þekkt. Talningar hafa farið fram í öllum íslenskum byggðum á 5−10 ára fresti frá 1977. Auk þess liggja fyrir misjafnlega góðar talningar fyrir sumar byggðir allt aftur til 1913. Súlan er farfugl en dvelst þó við landið lungann úr árinu, hverfur yfirleitt í nóvember eða desember og snýr aftur í janúar.

Stofnfjöldi

Súlustofninn taldi um 37 þúsund pör 2013/2014 og hefur vaxið stöðugt um langt skeið, um tæp 2% á ári (Arnþór Garðarsson, í prentun). Vörpin eru aðeins fimm (sjá kort). Eldey var löngum langstærsta byggðin en nú standa vörpin í Vestmannaeyjum henni jafnfætis (sjá töflu). Alls verpa á þessum tveimur svæðum suðvestanlands um 30 þúsund pör. Hinar þrjár byggðirnar eru á austanverðu landinu: í Skrúði (rúmlega 6.000 pör), Skoruvík á Langanesi (656 pör) og Rauðanúpi á Melrakkasléttu (655 pör).

Válistaflokkun

VU (í nokkurri hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
VU LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 20,7 ár Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 1952–2014

Súla verpur á aðeins fimm svæðum hér á landi og telst því í nokkurri hættu (VU, D2) sem er sama flokkun og í Válista 2000.

Viðmið IUCN: D2

D. Stofn mjög lítill eða takmarkaður.2. Stofn dvelur á mjög takmörkuðu svæði (t.d. minna en 20 km2) eða fáum stöðum (t.d. færri en 5). Slíkum stofni gæti verið hætta búin af umsvifum manna eða af tilviljanakenndum atburðum, fyrirvaralítið einhvern tíma í framtíðinni og þannig komist í bráða hættu eða jafnvel dáið út á skömmum tíma.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Súla var flokkuð sem tegund í nokkurri hættu (VU).

Verndun

Súla er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Á takmörkuðum svæðum, þar sem eggja- eða ungataka súlu taldist til hefðbundinna hlunninda 1. júlí 1994, skulu friðunarákvæði laga nr. 64/1994 ekki vera til fyrirstöðu því að veiðirétthafi megi nytja þau hlunnindi eftirleiðis.

Válisti

Tvær súlubyggðir hér eru flokkaðar sem alþjóðlega mikilvægar og allur stofninn verpur á mikilvægum fuglasvæðum (sjá töflu).

IBA viðmið – IBA criteria:

A4 ii: heimsstofn/global = 6.830 pör/pairs (Bird­Life 2016c)

B1 ii: A4 ii

Töflur

Súluvörp á Íslandi – Colonies of Morus bassanus in Iceland.*

Svæði AreaSvæðisnúmer Area codeÁrstími SeasonFjöldi (pör) Number (pairs)Ár Year% af íslenskum stofni % of Icelandic popul.Alþjóðlegt mikilvægi International importance
Eldey  SF-V_2 B 14.810 2013–2014 39,8 A4ii, A4iii, B1ii
Rauðinúpur** SF-N_12 B 655 2013–2014 1,8  
Skoruvíkurbjarg SF-N_13 B 656 2013–2014 1,8  
Skrúður SF-A_8 B 6.051 2013–2014 16,3  
Vestmannaeyjar SF-S_4 B 15.044 2013–2014 40,4 A4ii, A4iii, B1ii
Alls–Total     37.216   100  
*byggt á Arnþór Garðarsson 2019. **Hluti af mikilvægu fuglasvæði, SFB-N_12 Melrakkaslétta – Belongs to the important bird area SFB-N_12 Melrakkaslétta.

Myndir

Heimildir

Arnþór Garðarsson 2019. Íslenskar súlubyggðir 2013–2014. Bliki 33: 69–71.

BirdLife International 2016. IUCN Red List for birds. http://www.birdlife.org [skoðað 20.10.2016].

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018

Biota

Tegund (Species)
Súla (Morus bassanus)

Samantekt á Ensku

Morus bassanus is most common off southern Iceland with 37,000 pairs inn 2013/2014; two colonies are of international importance (≥10,000 pairs) and all the population breeds within IBAs.

Icelandic Red list 2018: Vulnerable (VU, D2), the same as last assessment in 2000.