Ársfundur Náttúrufræðistofnunar Íslands og útgáfa ársskýrslu

15.04.2019
Ester Rut Unnsteinsdóttir fundarstjóri á ársfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands 2019
Mynd: Magnús Guðmundsson

Ester Rut Unnsteinsdóttir fundarstjóri ársfundar Náttúrufræðistofnunar Íslands 2019.

Ársfundur Náttúrufræðistofnunar var haldinn í 26. sinn föstudaginn 12. apríl síðastliðinn á Hótel Reykjavík Natura. Þar voru flutt ávörp og erindi um verkefni sem unnið hefur verið að hjá stofnuninni.

Á ársfundinum flutti Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra ávarp. Ráðherra benti á mikilvægi þess að stofnanir eins og Náttúrufræðistofnun undirbyggi af kostgæfni og vandvirkni ákvarðanir stjórnvalda með vísindalegum rannsóknum og úttektum. Hann lagði áherslu á grunnrannsóknir eins og þær sem lágu að baki útgáfu á ritum og kortum Náttúrufræðistofnunar Vistgerðir á Íslandi og Mikilvæg fuglasvæði á Íslandi. Ráðherra sagðist vera ánægður með samning sem hann undirritaði nýlega við Náttúrufræðistofnun og ÍSOR um gerð jarðfræðikorta og skráningu jarðminja. Sú jarðfræðivinna mun treysta þann grunn sem við þurfum að eiga um náttúru Íslands. Auk grunnrannsókna þurfi einnig að sinna vöktun sem nýtist á mörgum sviðum. Með vöktun má sjá hvernig náttúran þróast til dæmis í kjölfar loftslagsbreytinga. Í tengslum við landsáætlun um uppbyggingu innviða tókst að ná inn fjármagni í síðustu fjármálaáætlun. Setja á 80 mkr. á ári í vöktun á náttúru Íslands, á friðlýstum svæðum sérstaklega. Íslendingar eru að gera vel í ákveðnum málaflokkum eins og náttúruvá sem tengist loftslags­breytingum og fleiri þáttum. Ráðherra hefur falið Náttúrufræðistofnun og Náttúrustofum landsins að sinna þessari vöktun í samvinnu við fleiri aðila, enda er það lögbundið hlutverk Náttúrufræðistofnunar að gera vöktunaráætlun. Guðmundur Ingi velti upp þeirri hugmynd hvort komin væri tími til að sameina þessar stofnanir. Hann sagði mikla sérfræðiþekkingu hjá Náttúrustofum og fjármagni til þeirra væri vel varið á landsbyggðinni. Hann benti m.a. á fjárstyrk sem hann veitti Náttúrustofu Vesturlands til að rannsaka minka og búa til vöktunaráætlun til að halda þeirri ágengu og framandi tegund í skefjum. Ráðherra benti á það mikilvægi sem Náttúrufræðistofnun hefði við vinnu að B hluta náttúruminjaskrár þar sem fram hafa komið tillögur um friðlýsingar á sviði vistgerða, fuglasvæða og jarðfræði, en þær eru núna í vinnslu hjá Umhverfisstofnun. Guðmundur sagði frá því að hann hefði kallað eftir fleiri tillögum frá Náttúrufræðistofnun um svæði og fleiri gerðir af náttúrufyrirbærum til að friðlýsa. Hann lagði áherslu á að fá tillögur um friðlýsingu víðerna, lindarsvæða, fossa og hella. Hvers vegna þessi fyrirbæri? Víðerni og lindarsvæði eru að verða æ sjaldgæfari auðlind um allan heim, ekki síst í Evrópu. Ísland er eitt fossaríkasta svæði heims og ferðamenn sækja mikið í þá. Hann reiknaði með að leggja fram tillögu á næsta þingi á grundvelli hugmynda frá Náttúrufræðistofnun. Guðmundur Ingi fjallaði einnig um líffræðilega fjölbreytni eða náttúruna og vernd hennar. Sagði hann að unnið væri að tillögum á sviði líffræðilegrar fjölbreytni. Setja ætti metnaðarfull markmið fyrir samninginn árið 2030 og huga að samlegðaráhrifum sem gætu nýst líffræðilegri fjölbreytni og baráttunni í loftlagsmálum. Að lokum nefndi ráðherra fjölmörg verkefni sem hann og hans ráðuneyti eru með í vinnslu, s.s. viðauka við landsskipulags­stefnu, aukið fjármagn til að sinna landvörslu og þjóðgarði á miðhálendinu, samstarf við bændur um náttúruvernd, endurskoðun á villidýralögum og efnahagsleg áhrif fjárveitinga í náttúruvernd á landsbyggðinni. Ráðherra þakkaði starfsmönnum Náttúrufræðistofnunar fyrir störf á liðnum árum og hvatti þá til áframhaldandi dáða. Ávarp ráðherra er birt á vef umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Næst flutti Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands skýrslu. Hann fór yfir hlutverk stofnunarinnar og helstu verkefni á árinu 2018.

Þorkell Lindberg Þórarinsson forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands og formaður Samtaka náttúrustofa flutti ávarp. Hann fjallaði um tengsl og verkefni Náttúrufræðistofnunar og Náttúrustofa og margvíslega samvinnu þeirra.  

Lovísa Ásbjörnsdóttir sviðsstjóri landupplýsinga kynnti kortasjá og benti á þætti sem hljóta sérstaka vernd. Erling Ólafsson skordýrafræðingur hélt erindi um vöktun fiðrilda sem staðið hefur í 24 ár. Guðmundur A Guðmundsson dýravistfræðingur gerði grein fyrir stofnbreytingum algengra fugla sem vaktaðir eru í vetrarfuglatalningum. Að lokum hélt Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir fyrirlestur um myglusveppi í skólum og opinberum byggingum og fleiri tegundir sveppa.

Ársfundurinn var tekinn upp og sendur út á Youtube. Þar er unnt að hlusta á öll erindi sem flutt voru.

Í ársskýrslu Náttúrufræðistofnunar 2018 er fjallað um helstu verkefni ársins og rekstrarþætti. Hún er að þessu sinni aðeins gefin út á vef Náttúrufræðistofnunar.