Frjómælingar í júní

04.07.2019
Túnsúra (Rumex acetosa)
Mynd: Hörður Kristinsson

Túnsúra (Rumex acetosa).

Frjókorn mældust alla daga í júní á Akureyri og í Garðabæ en fjöldi þeirra var þó talsvert undir meðaltali. Á báðum stöðum var mánuðurinn óvenju þurr og sólríkur. Frjótíma birkis er nú lokið en aðalfrjótími grasa er framundan í júlí og ágúst.

Á Akureyri mældust 546 frjó/m3 en meðaltalið er 703 frjó/m3. Mest var af grasfrjóum (180 frjó/m3) og var fjöldi þeirra talsvert yfir meðaltali. Lítið mældist hins vegar af birkifrjóum (42 frjó/m3) og er frjótíma þeirra nú lokið. Súrufrjó voru nokkuð yfir meðaltali en aðrar frjógerðir í júní vorum einkum frjó sveipjurta, rósa, furu og stara. Alls mældust 20 frjógerðir.

Í Garðabæ mældust 503 frjó/m3 en meðaltalið er 1230 frjó/m3. Mest var af grasfrjóum (181 frjó/m3) en fjöldi þeirra var þó talsvert undir meðaltali. Birkifrjó mældust einungis 29 frjó/m3 og er frjótíma þeirra lokið líkt og norðan heiða. Fjöldi súrufrjóa var nokkuð yfir meðaltali en aðrar frjógerðir í júní voru einkum frjó stara, yllis, furu og rósa. Alls mældust 15 frjógerðir.

Í júlí og ágúst er aðalfrjótími grasa.

Fréttatilkynning um frjómælingar í júní 2019 (pdf)