Marhálmsgræður
Marhálmsgræður
F2.35
EUNIS-flokkun
A2.61 Seagrass beds on littoral sediments.
Marhálmsgræður

Marhálmsblettur í mynni Vatnsfjarðar í Breiðafirði. – A patch of Zostera angustifolia in the Westfjords.

Marhálmsgræða neðan klóþangsfjöru í Arnarnesvogi. – Zostera angustifolia bed on a littoral sediments, below a belt of Ascophyllum nodosum in southwestern Iceland.
Lýsing
Fínkornóttar leirur með breiðum af marhálmi sem er graskennd æðplanta og einkennistegund vistgerðarinnar. Súrefnislaust, dökkt eða svart lag tekur oft við um 5 cm undir yfirborði setsins. Seltan er breytileg en marhálmur þolir mjög breitt seltubil (Tutin 1938) og er ein af fáum æðplöntum hér á landi sem vex í fjörum þar sem fullsaltur sjór fellur yfir. Vistgerðin er mjög tegundarík því vegna marhálmsins safnast lífríkur massi í leiruna sem dregur að sér ýmsar tegundir lífvera (Boström og Bonsdorff 1997). Hér á landi eru þó nánast engar ásætur á marhálminum eins og algengt er annars staðar. Marhálmsgræður voru mun algengari hér áður fyrr, en upp úr 1930 kom upp sýking sem eyddi marhálmi að mestu úr fjörum í N-Atlantshafi. Hann er að ná sér á strik aftur hér á landi þótt hann sé ekki orðinn jafn algengur og áður. Vistgerðin er helst þar sem set nær aldrei að þorna alveg, oft við árósa eða í sjávarlónum. Marhálmsgræður hafa lítið verið rannsakaðar hér á landi.
Fjörubeður
Sandur (fínn), leir.
Fuglar
Marhálmur er mikilvæg fæða fyrir margæs, álft og rauðhöfðaönd. Mest af honum er þó tekið meðan hann er á kafi og þá aðallega neðan fjörumarka.
Líkar vistgerðir
Skeraleirur, gulþörungaleirur, sandmaðksleirur.
Útbreiðsla
Einkum við Vesturland og Suðausturland.
Verndargildi
Miðlungs. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Þekkt útbreiðsla marhálmsgræða er um 1% (11 km2) af fjörum landsins. – Known distribution of seagrass beds on littoral sediments, dominated by Zostera angustifolia. They cover about 1% (11 km2) of the coast.
Áberandi gróður – Conspicuous vegetation | Áberandi dýr – Conspicuous animals | ||
---|---|---|---|
Marhálmur | Zostera angustifolia | Ánar | Oligochaeta |
Grænþörungsættkvísl | Ulva spp. | Burstaormar | Polychaeta |
Samlokur | Bivalvia | ||
Kræklingur | Mytilus edulis | ||
Sæsniglar | Gastropoda | ||
Marflær | Amphipoda | ||
Krabbaflær | Copepoda | ||
Fjörulýs | Jaera spp. | ||
Þráðormar | Nematoda |

Selta og brimasemi í fjöruvistgerðum var metin á kvarða sem byggist á:
a) brimasemi í vistgerðum, skipt í fjögur gildisbil (REI); lítil (0,0001–8.000), nokkur (8.000–32.000), talsverð (32.000–128.000) og mikil (>128.000).
b) selta í vistgerðum, skipt í þrjú gildisbil, metið út frá staðháttum og heimildum; há (35–33 S), miðlungs (~33–20 S) og lág (~20–10 S).
Salinity and exposure in each shore type was estimated based on:
a) exposure, divided into four intervals of calculated REI index; small (0.0001–8,000), significant (8,000–32,000), considerable (32,000–128,000) and high (>128,000).
b) salinity range, divided into three intervals, estimated from geograhic proximity to fresh water and some available local measurements of salinity; high (35–33 S), medium (~33–20 S) og low (~20–10 S).
Heimildir
Boström C. & Bonsdorff E. 1997. Community structure and spatial variation of benthic invertebrates associated with Zostera marina (L.) beds in the northern Baltic Sea. Journal of Sea Research 37: 153-166.
Tutin T.G. 1938. The autecology of Zostera marina in relation to its wasting disease. New Phytologist 37(1): 50-71.