Ofnæmisvaldar

Það er einkum tvennt sem þarf til að frjókorn valdi ofnæmi:

  • Þau þurfa að innihalda „allergen“ eða ofnæmisvaka, en það er eggjahvítuefni sem líkami fólks sem er með ofnæmi skynjar sem hættulegt efni
  • Þau þurfa að vera til staðar í miklu magni. Almenna reglan er sú að þéttleiki frjókorna í loftinu sem við öndum að okkur þarf að fara yfir 10–20 frjókorn/m3 til að ofnæmiseinkenna verði vart. Þetta getur þó verið mismunandi frá manni til manns og til er fólk sem fær einkenni strax og fyrstu grös blómgast í júní.

Vindfrævaðar kallast þær plöntur sem eru háðar vindi til að dreifa frjókornum sínum. Þessi aðferð er mjög ómarkviss og er það bætt upp með því að framleiða frjókorn í gífurlegu magni. Yfirleitt eru blóm vindfrævaðra plantna óásjáleg og eru grastegundirnar gott dæmi um það.

Skordýrafrævaðar plöntur hafa gjarnan litfögur og stór blóm með sæta angan til að laða skordýr að sér. Aðferð þeirra við að dreifa frjókornum á rétt fræni er mun markvissari en hjá vindfrævuðum plöntum og því mynda þær fá frjókorn. Þau valda sjaldan ofnæmi og varla nema frjóhnapparnir séu snertir, enda sleppur jafnan lítið af frjókornum skordýrafrævaðra tegunda út í andrúmsloftið.

Á Íslandi eru það einkum þrjár gerðir frjókorna sem koma af stað ofnæmi, allar fremur algengar. Þessar tegundir eru:

Birkifrjó (Betula pubescens), 26 µm. Einkenni eru 3 göt og sléttur veggur.

Birkifrjókorn

Á Íslandi vaxa tvær tegundir af birkiættkvísl Betula. Þær eru ilmbjörk (Betula pubescens) eða birki í daglegu tali og fjalldrapi (Betula nana). Ekki er greint á milli frjókorna þeirra við frjótalningu.

Blómskipun birkis kallast reklar. Þeir byrja að þroskast sumarið áður en þeir opnast og fara að dreifa frjókornum sínum með vindi. Fjöldi frjókorna er í hlutfalli við hlýindi og vætu sumarið áður fremur en vorið sem reklarnir opnast.

Birki eins og flest tré framleiða afar mörg og smá frjó sem eru létt og geta borist langar leiðir með sterkum vindum. Birki er einn skæðasti ofnæmisvaldurinn á Norðurlöndunum. Þar eru birkiskógar algengir og birkið blómgast strax í apríl. Einstaka sinnum kemur fyrir að gusa af erlendum birkifrjóum komi í gildrur á Íslandi áður en birki hérlendis er byrjað að blómstra.

Latneskt heiti: Betula pubescens og Betula nana

Frjótími
Vorveðrátta, aðallega hitastig, hefur mikil áhrif á það hvenær frjótíminn hefst. Hér á landi getur blómgun hafist um miðjan maí en oftast fara frjókorn að dreifast í síðustu viku maí og nær frjódreifing þá hámarki öðru hvoru megin við mánaðarmótin maí og júní. Birkifrjó eru í loftinu í 2-4 vikur háð veðri. Ef kalt er og vætutíð getur tognað úr þeim tíma sem birkifrjó eru í lofti.

Fólk með birkiofnæmi getur fundið fyrir ofnæmiseinkennum þegar elri blómgast í mars/apríl því frjókorn birkis og elri hafa sömu ofnæmisvaka.

Ofnæmisviðbrögð
Birkifrjó valda sterkum ofnæmisviðbrögðum.

Víxlbinding
Víxlbinding er þekkt milli frjókorna og fæðutegunda, þannig getur fólk með birkiofnæmi sýnt ofnæmisviðbrögð þegar það borðar græn epli eða heslihnetur.

 

Grasfrjó (Poaceae), oft um 35 µm. Einkenni eitt gat.

Grasfrjó (Oaceae)

Um fimmtíu tegundir af grasaætt, Poaceae, vaxa villtar eða eru ræktaðar á Íslandi. Sumar eru mjög algengar aðrar fáséðar. Þær mynda allar frjókorn sem ekki verða greind til tegunda í venjulegri smjásjá.

Blómskipun grasa er ýmist ax (t.d. melgresi), axpuntur (t.d. háliðagras) eða puntur (t.d. vallarsveifgras). Það er kallað að grös skríði þegar blómið brýst út úr slíðrinu fram í dagsljósið. Nokkur tími getur liðið frá því að grösin skríða þar til blómin opnast og fræflarnir sem geyma frjókornin eru fullþroskaðir og fara að sjást. Þegar það gerist tekur vindurinn við og feykir frjókornunum út í andrúmsloftið en þaðan eiga þau greiða leið að öndunarfærum okkar. Þeir sem eru haldnir ofnæmi fyrir grasfrjóum finna strax þegar þessi tími er kominn. Flest grös eru vindfrævuð, þ.e. vindurinn sér um að bera frjókorn yfir á fræni frævunnar þar sem þau frjóvga síðan eggið. Að því loknu tekur fræið, sem hjá grösum kallast korn, að þroskast.

Grasofnæmi er algengasta frjókornaofnæmi á Íslandi. Á Norðurlöndunum er birkiofnæmi algengara.

Latneskt heiti: Poaceae

Frjótími
Árferði ræður miklu um fjölda frjókorna og lengd tímabils sem grösin losa frjó. Frjótölur eru oftast lágar í júní en í seinni hluta júlí og byrjun ágústmánaðar er hámark grastímans hér á landi.

Þær tegundir sem fyrstar blómstra í lok maí eru t.d. háliðagras (Alopecurus pratensis). Þegar kemur fram í júní blómgast m.a. snarrótarpuntur (Deschampsia cespitosa) og í júlílok vallarfoxgras (Phleum pratense). Língresi (Agrostis spp.) blómstrar oft ekki fyrr en kemur fram í ágúst. Þannig má gera ráð fyrir að einhver grastegund sé í blóma og dreifi frjókornum frá júníbyrjun og fram í september. Grastegundirnar eru allar taldar vera með ofnæmisvaka í sér þó eru þær misskæðar. Vallarfoxgras er oft nefnt sem sérstaklega slæmt fyrir þá sem haldnir eru grasofnæmi. Það er einmitt í blóma þegar þéttleiki grasfrjóa í lofti er hvað mestur sem er í lok júlí og byrjun ágúst.

Ofnæmisviðbrögð
Grasfrjó valda sterkum ofnæmisviðbrögðum.

Víxlbinding
Innbyrðis sýna grastegundir oft víxlbindingu. Víxlbinding við fæðutegundir er ekki algeng en þekkist þó í tengslum við baunir, soja, jarðhnetur og aðrar belgjurtir.

Þrjár tegundir af súruættkvísl, Rumex, vaxa á Íslandi auk nokkurra sjaldgæfra slæðinga. Þessar þrjár eru túnsúra (Rumex acetosa), hundasúra (Rumex acetosella) og njóli (Rumex longifolius). Þær eru í blóma mestallt sumarið frá júní og fram í ágúst, en mest er um súrufrjó í byrjun júlí. Súrufrjó valda ofnæmi en eru ekki talin skæð. Algengt er að fólk með grasofnæmi hafi líka ofnæmi fyrir súrufrjóum.

Latneskt heiti: Rumex spp.

Frjótími
Súrufrjó eru í loftinu frá því snemma í júní og fram í ágúst.

Ofnæmisviðbrögð
Súrufrjó valda meðalsterkum ofnæmisviðbrögðum.

Víxlbinding
Víxlbinding við ofnæmisvaka súrufrjóa er ekki þekkt með vissu en grunur leikur á víxlbindingu við grasætt.

Hér á landi vaxa fleiri tegundir sem þekktar eru fyrir að valda ofnæmi en þær eru ýmist sjaldséðar í náttúru landsins eða framleiða það lítið af frjókornum að áhrifin koma ekki fram nema við ákveðnar aðstæður.

Átta tegundir af elriættkvísl, Alnus, eru ræktaðar hér á landi, oftast sem stök tré í görðum (grænölur, rauðölur, dúnölur, gráölur, ryðölur, sitkaölur, blæölur og kjarrölur). Ölur er fyrst allra tegunda að blómgast á vorin, stundum hanga útsprungnir reklarnir strax í mars. Hann er af sömu ætt og birkið og hefur sömu ofnæmisvaka. Fólk með ofnæmi fyrir birki getur því fundið fyrir einkennum löngu áður en birkið blómgast ef það er í námunda við blómstrandi öl. Frjókornin mælast sárasjaldan hér á landi bæði vegna þess að frjómælingar hefjast eftir að ölur hefur blómgast en einnig vegna þess hve trén eru ennþá fá í ræktun.

Latneskt heiti: Alnus spp.

Frjótími
Ölur blómgast snemma (mars–maí), fljótlega eftir að hitastig fer upp fyrir 5°C.

Ofnæmisviðbrögð
Í meðallagi til sterk.

Víxlbinding
Fólki með mikið birkiofnæmi er hætt við einkennum þegar ölur blómgast.

Tegundir af víðiættkvísl, Salix, eða víðis (Salix spp.) eru nokkrar hér á landi, fjórar innlendar og allmargar ræktaðar (a.m.k. 20). Flestar eru runnar en meðal þeirra ræktuðu eru nokkrar trjátegundir (selja og viðja). Víðifrjó eru með fyrstu frjókornum sem koma í frjógildruna á vorin. Þau eru sjaldan í miklu magni en koma jafnt og þétt fram eftir sumri (apríl-júlí). Víðifrjó geta valdið ofnæmi.

Latneskt heiti: Salix spp.

Frjótími
Blómgun getur hafist í apríl og víðifrjó eru í loftinu frá því í apríl fram í júní / júlí enda um margar tegundir með mismunandi blómgunartíma að ræða.

Ofnæmisviðbrögð
Víðifrjó valda veikum ofnæmisviðbrögðum.

Víxlbinding
Víxlbinding er þekkt innan ættkvíslarinnar Salix og við frjókorn aspar (Populus).

Aspir, Populus, eru af víðisætt, ein tegund er talin innlend, blæösp (Populus tremula) og nokkrar hafa verið reyndar í ræktun. Alaskaösp (Populus trichocarpa) hefur verið í ræktun hér á landi frá miðri síðustu öld. Þegar öspin hefur náð a.m.k. 20 ára aldri ber hún fyrst blóm. Þá fyrst fer hún að dreifa frjókornum snemma á vorin. Á fyrstu árum frjómælinga í Reykjavík upp úr 1988 mældust fá og stundum engin asparfrjó en frá 1994 hafa þau mælst á hverju ári, voru fá í fyrstu en hefur farið fjölgandi. Venjulega dreifast frjókornin í fyrri hluta maí en í apríllok þegar vorar snemma. Asparfrjó geta valdið ofnæmi en eru ekki talin skæð.

Latneskt heiti: Populus spp.

Frjótími
Alaskaösp (Populus trichocarpa) blómgast snemma (apríl–maí), frjótímanum er oftast lokið upp úr miðjum maí.

Ofnæmisviðbrögð
Asparfrjó valda vægum ofnæmisviðbrögðum.

Víxlbinding
Víxlbinding er ekki þekkt (hugsanlega við víði, Salix spp.)

Tvær tegundir af netluættkvísl, Urtica, vaxa hér á landi, brenninetla (Urtica dioica) og smánetla (Urrtica urens). Netla var upphaflega ræktuð en vex nú fyrst og fremst sem slæðingur. Netlan myndar frjókorn í miklu magni seint í júlí og í ágúst. Þau eru talin geta valdið veikum ofnæmisviðbrögðum.

Latneskt heiti: Urtica dioeca, Urtica urens

Frjótími
Netlufrjó geta verið í loftinu í júlí og byrjun ágúst, frjótölur eru oftast lágar.

Ofnæmisviðbrögð
Netlufrjó valda veikum ef nokkrum ofnæmisviðbrögðum.

Víxlbinding
Víxlbinding við frjókorn wall pellitory (Parietaria judaica), sem vex á Spáni er þekkt.

Þrjár tegundir af græðisúruættkvísl (Plantago) vaxa á Íslandi, kattartunga (Plantago maritima), græðisúra (Plantago major) og selgresi (Plantago lanceolata). Sú síðastnefnda vex gjarnan við jarðhita og er ekki algeng. Græðisúra vex á röskuðum svæðum, nokkuð algeng í þéttbýli en kattartunga vex hins vegar víða við sjávarsíðuna og á röskuðum svæðum. Frjókornin mælast ekki í miklu magni en erlendis eru Plantago frjó jafnan talin með fremur skæðum ofnæmisvöldum.

Latneskt heiti: Plantago maritima, Plantago major, Plantago lanceolata

Frjótími
Plantago frjó eru í loftinu í júní og júlí, frjótölur eru lágar.

Ofnæmisviðbrögð
Plantago frjó valda veikum til meðalsterkum ofnæmisviðbrögðum.

Flestar tegundir körfublómaættar (Asteraceae) sem vaxa á Íslandi eru skordýrafrævaðar. Þess vegna eru frjókorn þeirra ekki algeng í lofti en það kemur samt fyrir að það mælist eitt og eitt frjó. Þekkt er að fíflafrjó geta komið af stað ofnæmisviðbrögðum hjá börnum, þau eru þó ekki talin vera skæðir ofnæmisvaldar. Ein tegund körfublómaættar, sem vex hér sem slæðingur í görðum, er talin vera að festa sig í sessi er búrót, líka nefnd malurt, (Artemisia vulgaris). Hún er vindfrævuð og skæður ofnæmisvaldur, svo skæð að Norðmenn hafa skorið upp herör gegn henni og gera allt sem þeir geta til að uppræta hana. Búrót vex á röskuðum svæðum, hún blómstrar í ágúst og dreifir þá ógrynnum af frjókornum út í loftið. Fræframleiðsla er líka mikil og dreifist búrót því hratt út þar sem vaxtarskilyrði eru góð.

Latneskt heiti: Asteraceae

Frjótími
Fíflafrjó geta verið í loftinu um miðjan júní og aftur kringum mánaðamótin júlí og ágúst.

Frjókorn af baldursbrárgerð og frá tegundum af Aster ættkvísl sjást af og til þegar liðið er á sumarið.

Ofnæmisviðbrögð
Frjó af körfublómaætt valda veikum ofnæmisviðbrögðum Ræktaðar tegundir eins og t.d. búrót Artemisia vulgaris eru hins vegar mjög skæðar.

Repja er ræktuð tegund (Brassica napus subsp. oleifera) auk þess sést hún oft við grænfóðursakra sem slæðingur. Hún er af krossblómaætt, Brassicaceae, en frjókorn þeirrar ættar eru sjaldséð í frjógildrum í Reykjavík og á Akureyri. Nálægt repjuökrum má hins vegar búast við að meira sé um frjókorn í lofti á þeim tíma sem blómgun stendur yfir. Repjufrjó geta valdið veikum til meðalsterkum ofnæmisviðbrögðum.

Latneskt heiti: Brassica napus subsp. oleifera

Frjótími
Stendur yfir frá miðjum júní fram í júlí. Þar sem frjómælingar fara fram í dag (Reykjavík og Akureyri) eru frjótölur lágar. Við repjuakra er þéttleiki frjókorna meiri.

Ofnæmisviðbrögð
Ofnæmisviðbrögð eru frá því að vera lítil upp í meðallag.

Víxlbinding
Víxlbinding við repjufrjó er ekki þekkt.

Fjölmargar tegundir eru af sveipjurtaætt, Apiaceae. Algengastar eru ætihvönn (Angelica archangelica), geithvönn (Angelica sylvestris), skógarkerfill (Anthriscus sylvestris) og spánarkerfill (Myrrhis odorata). Tvær síðastnefndu teljast vera í hópi ágengra slæðinga. Hvanna- og kerfilsfrjó geta valdið ofnæmi en eru ekki talin skæð sem slík. Þau mælast aldrei í miklu magni og eru í loftinu í júní og júlí og stundum fram í ágúst.

Latneskt heiti: Apiaceae (Umbelliferae)

Frjótími
Hvanna-/kerfilsfrjó mælast frá miðjum júní fram í ágúst, frjótölur eru lágar.

Ofnæmisviðbrögð
Hvanna-/kerfilsfrjó valda veikum ofnæmisviðbrögðum.

Tvær tegundir og nokkrar undirtegundir af ylliættkvísl, Sambucus, eru ræktaðar í görðum hér á landi. Yllir hefur runnkenndan vöxt, hann blómgast í júní og dreifir þá frjókornum sínum. Á síðustu árum hafa þau mælst ár hvert en aldrei í miklu magni. Yllifrjó geta valdið ofnæmi en eru ekki talin skæð.

Latneskt heiti: Sambucus nigra, Sambucus racemosa

Frjótími
Yllifrjó eru í loftinu í júní, en frjótölur eru jafnan lágar.

Ofnæmisviðbrögð
Yllifrjó valda veikum til meðalsterkum ofnæmisviðbrögðum.

Víxlbinding
Víxlbinding við yllifrjó er ekki þekkt.

Ásgeir Svanbergsson. Tré og runnar á Íslandi. Íslensk náttúra I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf. 1989, 234 bls.

Mary Jelks. Allergy Plants. ISBN: 0-911977-04-X, 64 bls.

Naturhistoriska riksmuseet

Piotrowska, K., & Kubik-Komar, A. (2012). The effect of meteorological factors on airborne Betula pollen concentrations in Lublin (Poland). Aerobiologia, 28(4), 467–479. http://doi.org/10.1007/s10453-012-9249-z

Polleninfo.org